143. löggjafarþing — 68. fundur,  25. feb. 2014.

um fundarstjórn.

[22:14]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Flestir sem hér hafa talað hafa nú nokkuð góða þingreynslu og ég held, með fullri sanngirni, ef menn hugsa aðeins til baka, að við höfum nú heyrt harkalegri orðaskipti en verið hafa hér núna. Það sem hefur gerst, sem gerist ekki oft og reyndar man ég ekki til þess að það hafi nokkurn tíma gerst, er að hæstv. ráðherra býðst til þess að koma til móts við stjórnarandstöðuna í nafni sátta og taka orð út úr greinargerðinni og prenta tillöguna aftur.

Virðulegi forseti. Ég vil hvetja menn til þess að hugsa aðeins til baka um hvernig umræðan hefur verið. Við viljum ekki sjá hana eins og hún hefur oft verið áður. Það þarf tvo til ef menn ætla að ná saman, það þarf okkur öll til ef við ætlum að sjá til þess að umræðan hér sé eins og við tölum jafnan um að hún eigi að vera. Ég vil (Forseti hringir.) með fyllstu virðingu, virðulegi forseti, biðja hv. þingmenn aðeins að íhuga það áður en lengra er haldið.