143. löggjafarþing — 68. fundur,  25. feb. 2014.

um fundarstjórn.

[22:18]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Ég tek undir með síðasta hv. þingmanni, Bjarkeyju Gunnarsdóttur, að þegar hæstv. ráðherra kallar hér fram í og segir að hv. þingmaður ljúgi séu það ekkert annað en brigslyrði og þar að auki kalli það á að forseti víti viðkomandi aðila.

Ástæðan fyrir að ég kem hér upp er að fyrr í kvöld, fyrir svona hálftíma, klukkutíma síðan, var sá kafli í þessari umræðu þar sem við vorum farin að ræða lausnir. Þar var málefnaleg umræða frá stjórnarþingmanni, hv. þm. Ragnheiði Ríkharðsdóttur, og menn voru farnir að velta vöngum yfir lausnum. Þá kom hæstv. ráðherra inn og hreytti í okkur að það væri nú kannski hægt að verða við því loksins að taka eitthvað út úr greinargerð, af því að hann skildi það sem við vorum að gagnrýna. — Engar afsökunarbeiðnir, nánast ekki nein afsökun á því að þarna væri rangt með farið.

Ég styð þá tillögu sem hér hefur komið fram, að við ljúkum fundi í kvöld, og ég bið hæstv. forseta að hlusta vel á það, að menn ræði þetta í þingflokkum sínum og við reynum að koma inn í (Forseti hringir.) þingið að nýju með betri hætti en verið hefur.