143. löggjafarþing — 69. fundur,  26. feb. 2014.

dráttur á svari við fyrirspurn.

[15:08]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Ég tek undir með hv. þm. Valgerði Bjarnadóttur og geri athugasemdir við þetta. Fjöldamargar spurningar í þessari fyrirspurn eru þess eðlis að einfalt er að svara þeim, jafnvel þótt lögreglurannsókn standi yfir. Ég tek sem dæmi 3. lið:

„Hvað var til skoðunar í rannsókn ráðuneytisins á meintum leka á umræddu minnisblaði? Hver hafði forstöðu í þeirri rannsókn? Hverjar voru niðurstöðurnar?“

Mér er stórlega til efs að ráðuneyti í Danmörku gæti neitað því að veita þinginu efnislegar upplýsingar af þessum toga bara vegna þess að lögreglurannsókn stendur yfir.

Til viðbótar er hér spurt: „Er til í ráðuneytinu minnisblað“ varðandi ákveðinn mann, „og ef svo er, hverjir fengu það?“

Það á að vera hægt að svara þessu með einföldum hætti, alveg óháð því hvort lögreglurannsókn er í gangi eða ekki. Ég vitna til þess að við höfum aftur og aftur talað um eftirlitshlutverk Alþingis með framkvæmdarvaldinu. Þetta mundi að mínu viti ekki geta gengið í Danmörku, að ráðuneyti (Forseti hringir.) kæmi sér undan svörum með þessum hætti.