143. löggjafarþing — 69. fundur,  26. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[20:47]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni spurninguna vegna þess að hún er afskaplega góð, vegna þess að þegar hv. þingmaður sem háttvirtur lögmaður hefur ákveðið að taka að sér eitthvert mál þá ver hann viðkomandi burt séð frá eigin sjónarmiðum, vegna þess að það er jú það sem lögmaður gerir.

Við höfum skjólstæðinga, það er búið að semja við þjóðina og samningurinn hljóðaði upp á að halda þjóðaratkvæðagreiðslu um þetta mál samkvæmt loforðum Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins fyrir kosningar, það var samningurinn. Og núna höfum við skjólstæðingana sem eru þjóðin og við eigum að vinna fyrir þessa skjólstæðinga sama hvort við erum sammála þeim eða ekki. Við eigum að vinna fyrir skjólstæðinga okkar sem við höfum tekið ákvörðun um að vinna fyrir, því að við buðum okkur öll fram hérna, þ.e. enginn neyddi okkur til þess að standa hér.

Að hinni spurningu hv. þingmanns, hvort ekki sé betra að kjósa um aðildina sjálfa en að kjósa um hvort halda eigi að áfram viðræðum við Evrópusambandið eða ekki. Hv. þingmaður spurði hvort ég teldi ekki að meginniðurstaða skýrslunnar væri sú að það væri afar ólíklegt að við fengjum varanlegar sérlausnir á ýmsum hagsmunum Íslands. Eins og ég sagði í ræðu minni áðan er meginniðurstaða mín af því að lesa þessa skýrslu sú að við þurfum meiri upplýsingar til þess að taka upplýsta ákvörðun. Og jú, ég er sammála því að best hefði verið ef við hefðum kosið um hvort hefja ætti aðildarviðræður, ég þyki róttækur í mér, ég veit, en ég trúi því samt eins og mörgu öðru róttæku og tel að það sé lykilforsenda að kjósa um það sem kemur út úr samningaviðræðum eða aðlögunarviðræðum eða hvað sem menn vilja kalla það. En núna þegar verið er að hóta því að slíta viðræðunum finnst mér sjálfsagt að kosið sé um það, sérstaklega með hliðsjón af því að búið er að lofa því, margsinnis.