143. löggjafarþing — 70. fundur,  27. feb. 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[17:12]
Horfa

utanríkisráðherra (Gunnar Bragi Sveinsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Fyrst vil ég segja að við getum flett því upp, ég og hv. þm. Guðmundur Steingrímsson, að ef ég man rétt voru EFTA-ríkin með fleiri fríverslunarsamninga en ESB hefur gert. Engu að síður er rétt að fríverslunarsamningur við Bandaríkin er mjög ákjósanlegur, hygg ég, við eigum eftir að sjá hann að vísu. EFTA-ríkjunum mun hins vegar standa til boða, miðað við þær yfirlýsingar sem við höfum séð, að koma að borðinu með svipuðum hætti og fá mögulega — mögulega, ég ítreka það — svipaðan samning.

Þegar sótt var um aðild 2009 minnir mig að skoðanakannanir hafi sýnt að allt að 76% voru gegn því að fara þarna inn. En hv. þingmaður spyr um hvað liggi til grundvallar því að við segjum að hagsmunum Íslands sé best borgið utan Evrópusambandsins. Það ætti þingmaðurinn að vita ágætlega, verandi og hafa setið flokksþing Framsóknarflokksins m.a. þar sem flokksþingið fór í gegnum þetta og ályktaði um málið,(Forseti hringir.) að það teldi að við ættum frekar að standa þarna utan.