143. löggjafarþing — 70. fundur,  27. feb. 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[17:37]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er eðlilega fátt sem hönd á festir að þessu leyti vegna þess að aldrei var skipst á samningspappírum því að kaflinn var ekki opnaður. Fyrir því voru efnislegar ástæður sem ég rakti hér áðan og má fyrst og fremst rekja til makríldeilunnar og endurkoðunar á fiskveiðistefnu Evrópusambandsins og biðar eftir að henni lyki.

Aldrei hef ég heyrt að það hafi haft nokkur áhrif að menn hafi haft áhyggjur af því að ekki væri hægt að leggja fram rýniskýrslu. Það er alveg ljóst hvað opnunarviðmið varðar að einu opnunarviðmiðin sem nokkurn tíma voru rædd í sjávarútvegi voru tengd því að nokkur aðildarríki vildu að sett yrði opnunarviðmið í kaflann og þau mundu bara hljóða upp á að gengið yrði frá samkomulagi í makríldeilunni og því yrði að ljúka áður en kaflinn yrði opnaður.

Snjallir menn í samninganefnd Íslands, eins og fyrrverandi formaður Sjálfstæðisflokksins, Þorsteinn Pálsson, stungu upp á því að það gæti verið sniðugt fyrir Ísland að bíða með að opna kaflann þar til makríldeilan væri leyst. Nú er hún leyst milli Íslands og Evrópusambandsins þó að Norðmenn haldi áfram uppteknum hætti og reyni að spilla samskiptum okkar við grannþjóðir af ráðnum hug í þeirri deilu.

Að því er varðar verklagið í þinginu ítreka ég að við viljum efnislega umfjöllun um málið. Við leggjum mikið upp úr því að málefnaleg umræða fari hér fram. Á það hefur skort mjög af hálfu stjórnarmeirihlutans frá því að þessi tillaga var lögð fram þar sem stjórnarmeirihlutinn hefur meira og minna hunsað umræður um sína eigin skýrslu og gengið þannig fram (Gripið fram í.)að varpa má upp efasemdum um það af hverju í ósköpunum óskað var skýrslunnar vegna þess að stjórnarmeirihlutinn hefur ekki (Forseti hringir.) sýnt mikinn áhuga á að vinna með hana. Við munum vilja efnislega umræðu um þetta mál áfram, við erum tilbúin til hennar, en við væntum þess líka að ríkisstjórnin (Forseti hringir.) haldi ekki áfram að rjúfa friðinn í samfélaginu eins og hún hefur gert hingað til heldur leiti samstöðu og sátta.