143. löggjafarþing — 70. fundur,  27. feb. 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[17:54]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég velti fyrir mér ákvörðunum sem taka þurfti meðan á ferlinu stóð, nefni sem dæmi ákvörðun um að sækja um IPA-styrki, ákvörðun um tilteknar breytingar á löggjöf eða stofnunum sem tengdust aðildarferlinu og annað þess háttar, eins jafnvel varðandi mótun samningsafstöðu í einstökum málaflokkum, og spyr: Telur hv. þingmaður að það hafi haft áhrif eða gæti haft áhrif að við það borð, þar sem ákvarðanirnar eru teknar, séu menn sem ekki vilja ganga inn í sambandið sem fjallað er um og að trúverðugleiki einstakra ákvarðana, bæði gagnvart almenningi og viðsemjendum, geti hugsanlega litast af því að menn velti fyrir sér hvort þeir ætli sér virkilega að ná samningi? Eru þeir að setja stífar kröfur til að ná ekki samningi? Telur hv. þingmaður að þessi hætta hafi verið fyrir hendi eða geti verið fyrir hendi?

Ég spyr af því að þess hefur verið getið í ýmiss konar umfjöllun um síðasta kjörtímabil að oft hafi komið til snarpra orðaskipta á vettvangi ríkisstjórnar, jafnvel þingflokka, um mál sem tengdust aðildarferlinu. Sumt af því kom fram opinberlega, frá sumu hefur verið greint síðar, jafnvel í bókum sem gefnar hafa verið út. Ég velti fyrir mér hvort hv. þingmaður, sem á þessum tíma átti sæti í ríkisstjórninni sem um er að ræða, hafi upplifað það með þessum hætti.