143. löggjafarþing — 72. fundur,  11. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[18:48]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir alveg skellandi góða ræðu. Reyndar leiftraði svoleiðis af orðaskiptum þeirra hv. þingsystra minna áðan að ráðherrar, eins og hæstv. utanríkisráðherra, hrökkva út úr þingsalnum eins og dvínandi gneistar af sverði sem hert er í eldi. Ég held hins vegar að hæstv. ráðherra hefði haft gott af því að hlusta á þau orðaskipti.

Hv. þingmaður benti réttilega á að með því þingmáli sem liggur fyrir eru þrír ef ekki fjórir, hugsanlega fimm hæstv. ráðherrar beinlínis að brjóta þau orð sem þeir gáfu kjósendum. Í umræðunni hefur komið fram að það eina sem þeir geta fært sem skjöld sér til varnar er hinn frægi ómöguleiki. Það er kannski tvennt til ráða varðandi það vandamál. Í fyrsta lagi er vel hægt að hugsa sér það að ef hæstv. ríkisstjórn treystir sér ekki til að lúta vilja kjósenda í þjóðaratkvæðagreiðslu, sem hún sjálf hefur lofað, verði settur sérstakur ráðherra sem með einfaldri breytingu á reglugerð um verkaskiptingu Stjórnarráðsins væri fólgið það verk að leiða samningana til lykta í samráði við þingið. Ég held að það yrði farsælt. Til þessa hefur þinginu og samninganefndinni sem var tekist að afgreiða 26 eða 27 samningsafstöður nánast í engum ágreiningi. Ég tel því að þetta sé hægt.

Mig langar þó ekki að spyrja hv. þingmann út í þetta heldur hitt: Ef ríkisstjórn treystir sér ekki til að fara að vilja þjóðar í atkvæðagreiðslu, sem fer fram vegna efnda á hennar eigin orðum, er þá ekki langhreinlegast að slík ríkisstjórn einfaldlega víki? Er það ekki hreinlegast í stjórnmálunum í dag?