143. löggjafarþing — 74. fundur,  13. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[14:10]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Við glímum öll við það á hverjum degi að fara að reglum sem við settum ekki sjálf. Við vinnum við það á hverjum degi sem löggjafi, sem kjörnir fulltrúar, sem fulltrúar framkvæmdarvaldsins eða sem kennarar eða sem lögreglumenn eða hvað annað, að fara að reglum sem við settum ekki sjálf. Það er ákveðinn ómöguleiki í því með sömu rökum, þ.e. ef ég samdi ekki reglurnar þá virði ég þær ekki. Ef ég skrifaði ekki bréfið þá skiptir undirskrift mín engu máli. Þau rök standast ekki vegna þess að þetta snýst um samfélag og þetta snýst líka um að vera maður orða sinna, að hafa í raun og veru úthaldið og auðmýktina í það að vera þátttakandi í því samtali sem samfélag er. Það er ekki einfalt en það er ekki ómögulegt, þar liggur hundurinn grafinn.

Við erum að tala um lýðræði og hvenær þjóðaratkvæðagreiðslur eiga við og inn í næsta kjörtímabil o.s.frv. Lýðræðið má sín einskis ef ekki liggur upplýst umræða því til grundvallar, eins og hv. þingmaður var að vísa til og nefndi einhverja harðstjóra fyrri tíma. Lýðræði sem snýst aðeins um að koma að kjörborðinu hefur ekkert innihald ef það byggir ekki á upplýsingu, þekkingu og víðtækri almennri menntun í samfélaginu. Þetta hangir alltaf saman. Þess vegna verður þjóðaratkvæðagreiðsla aldrei rofin úr því sambandi að við þurfum umræðu um málið úti á meðal fólksins (Forseti hringir.) sem byggir á upplýsingum.