143. löggjafarþing — 74. fundur,  13. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[14:53]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að það sé alger lykilspurning vegna þess að við erum að upplifa það sem verulega einstakt að við séum hér í mikilli ákefð að ræða það að slíta viðræðum við Evrópusambandið. Það er einsdæmi og ef það er einsdæmi þá verður maður að hugsa: Af hverju? Af hverju er það? Af hverju er þetta drifið svona áfram í miklum asa? Ég sé þrönga peningalega hagsmuni fyrir því.

Ef vel er á spilum haldið og við gengjum í Evrópusambandið með góðum samningi mundi það auka fjölbreytni í íslensku atvinnulífi, ég held það. Það var rakið ágætlega í skýrslu Seðlabankans fyrir ári síðan hvernig það getur gerst. Það hentar öðrum atvinnugreinum betur. Núverandi ástand hentar sumum betur. Við verðum að kunna í þessu að ræða hvar breiðu hagsmunirnir liggja gegn hinum þröngu. Mér finnst málsvarar hinna þröngu hagsmuna einhvern veginn ekki þola dagsljósið í þessari umræðu. Þeir koma ekki fram.