143. löggjafarþing — 74. fundur,  13. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[15:04]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér þykir leiðinlegt að hafa valdið hv. þingmanni vonbrigðum með ræðu minni. Það er hluti af nýrri pólitík, að mínu mati, að reyna að þoka Íslandi áfram inn í nýja og betri tíma og það er hluti af nýrri pólitík að reyna að tala hispurslaust og reyna að segja hvernig maður sér málin, hvernig þau líta út fyrir manni. Svo geta aðrir séð málin öðruvísi en ég held að það sé hlutverk okkar í þessum þingsal að reyna að segja hvernig málin líta út og reyna að færa rök fyrir skoðunum okkar.

Útgangspunkturinn í minni ræðu var að reyna að skilja af hverju við erum eina þjóðin af þessum 28 lýðræðisríkjum sem hafa gengið inn í Evrópusambandið sem eigum svona rosalega erfitt með það að ræða einfaldlega þessa spurningu og taka upplýsta ákvörðun í málinu. Við erum að hugsa um að slíta viðræðum og vera fyrsta þjóðin sem gerir það. Það þýðir í mínum huga að við erum þjóð sem viljum ekki sjá samning. Við viljum ekkert með hann hafa ef við ákveðum að slíta viðræðum. Það er ótrúlega mögnuð afstaða og ég er að reyna að skilja hana.

Ég sagði að ef ég setti mig í spor þeirra sem eru á móti ESB-aðild — sem ég skil, ég skil alveg þá sem eru á móti aðild — en ég skil ekki ákafann í að slíta viðræðum af þeirra hálfu. Ég varpaði fram kenningu og ég stend við hana. Það eru aðilar sem njóta góðs af núverandi ástandi efnahagsmála, t.d. af því sem er kallað sveigjanleg króna. Það eru aðilar sem njóta góðs af ofvernd í matvælaiðnaði sem þyrfti að láta undan ef við gengjum í ESB. Er það svo langsótt kenning að ákafinn, að löngunin til að slíta þessum viðræðum, til að sjá ekki samning, sé (Forseti hringir.) hugsanlega drifin áfram af þeim aðilum sem vilja ekki undir nokkrum kringumstæðum, burt séð frá öllum sérlausnum eða öðru, ganga inn í Evrópusambandið?