143. löggjafarþing — 74. fundur,  13. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[15:06]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Nú er það svo að skipt hefur verið um ríkisstjórn. Í ríkisstjórn sitja nú og styðja hana á þinginu flokkar sem hafa þá skoðun að hagsmunum Íslands sé best borgið utan Evrópusambandsins. Það er breyting frá því á síðasta kjörtímabili.

Ég vil spyrja hv. þingmann hvort hann telji sig ekki, sem aðili að þeirri tillögu sem var samþykkt á síðasta þingi, bera einhverja ábyrgð á því í hvaða farveg þetta mál hefur farið, hvernig haldið var á því á síðasta kjörtímabili. Hvers vegna náðu menn ekki að klára samninginn á þeim mikla tíma sem þeir höfðu til umráða? Telur hv. þingmaður sig ekki bera neina ábyrgð á því að það klúðraðist? Ber hann ekki ábyrgð gagnvart sínu fólki sem studdi hann þá, að hafa ekki haldið betur utan um, hvað á maður að segja, að hafa ekki ýtt betur á þáverandi stjórnvöld til að reyna að koma þessu baráttumáli sínu í höfn? Tíminn var til staðar fyrir fyrrverandi ríkisstjórn, ríkisstjórn sem a.m.k. að hálfu leyti vildi ganga í Evrópusambandið. Hann var ekki nýttur betur en þetta.