143. löggjafarþing — 75. fundur,  13. mars 2014.

makrílviðræðurnar, munnleg skýrsla sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.

[15:39]
Horfa

Óttarr Proppé (Bf):

Virðulegi forseti. Það verður að segjast, og er hægt að taka undir með hæstv. ráðherra og þeim hv. þingmönnum sem hafa rætt hér á undan, að tíðindin frá því í gær um að Evrópusambandið, Noregur og Færeyjar skyldu hafa náð samkomulagi komu gríðarlega á óvart og eru algjörlega á skjön við þá tilfinningu sem ég hafði gagnvart gangi viðræðnanna.

Við þingmenn sem njótum þess að sitja í utanríkismálanefnd höfum fengið að fylgjast mjög vel með gangi viðræðnanna og höfum fengið bæði hæstv. ráðherra og fulltrúa samninganefndarinnar oftsinnis á fund hjá okkur. Sérstaklega í ljósi niðurstöðunnar þegar viðræðum var slitið síðast og yfirlýsingar Damanaki, sjávarútvegskommissars Evrópusambandsins, um að Íslendingar og Evrópusambandið væru í raun sammála um málið og það stæði einungis á Norðmönnum er eiginlega með ólíkindum, a.m.k. fyrir óreyndan þingmann, fyrir mig, að upplifa að nú hafi skyndilega náðst samningar.

Makríllinn er auðvitað ekki fastagestur hérna við Ísland heldur kemur óreglulega til Íslands, eins og kom fram hjá hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni, hvort hann kemur tvisvar á öld eða hvað það er. Það er hins vegar alveg augljóst og allar mælingar hafa sýnt það að makríllinn hefur færst norðar og vestar. Hann hefur komið í mjög miklu magni til okkar og í íslenskri lögsögu étur makríllinn mjög mikið og þyngist mjög mikið. Það sem hefur gerst í þessu ferli er að frá því að Íslendingar hófu veiðar undir merkjum tilraunaveiða, eða hvað við eigum að kalla þær, hefur sú grundvallarbreyting orðið að við höfum fengið staðfestingu á því að vera strandríki gagnvart makrílnum og þess vegna er enn skrýtnara að þessi samningur hafði náðst fram hjá Íslendingum.

Ég tek undir með þingmönnunum sem töluðu á undan mér og lýsi yfir ánægju með það hvernig Ísland hefur hagað sér í þessum viðræðum, þ.e. við höfum lagt alla áherslu á sjálfbærar veiðar. Við höfum lagt áherslu á að veiðar úr stofninum væru sjálfbærar og bitnuðu ekki á honum og einmitt lagt á það áherslu að það næðist samkomulag allra aðila, í það minnsta sem flestra, til að tryggja að veiðar yrðu sjálfbærar. Það sem hefur staðið í vegi fyrir samningum í undanförnum lotum eru fyrst og fremst kröfur Norðmanna, að því er manni skildist, um miklu meiri veiðar en ráðgjöf hefur boðið upp á. Þar höfum við Íslendingar staðið fast við enda er það alveg lífsnauðsynlegt fyrir okkur sem ábyrga fiskveiðiþjóð og sem þá fiskveiðiþjóð sem rekur ábatasaman og sjálfbæran fiskiðnað, a.m.k. á norðurhveli. Við verðum að gera það. Það skiptir öllu máli fyrir okkur að við tölum alltaf máli ábyrgra og sjálfbærra veiða. Ég tel að við eigum að gera það áfram og verðum að horfa til þess í þessari stöðu hvort Ísland heldur áfram viðræðum við Norðmenn, Færeyinga og Evrópusambandið og gangi inn í þennan samning eins og Norðmenn hafa orðað að stæði í boði eða gefa út einhliða kvóta. Ég legg áherslu á að við höldum okkar kúrs hvað ábyrgar veiðar áhrærir með áherslu á „ábyrgar“.

Hitt vil ég segja að þessar fregnir eru líka mjög óþægilegar vegna þess að þær gefa okkur þá mynd að við höfum ekki fylgst nógu vel með eða að þarna hafi viðræður átt sér stað á bak við tjöldin eða hvernig sem það er. Í það minnsta tókum við ekki þátt í þeim og áttum ekki von á niðurstöðunni. Það þykja mér mjög óþægilegar fréttir og það gefur í það minnsta tilefni til að við skoðum okkar ferli og (Forseti hringir.) þegar það á við mótmælum því líka við hinar þjóðirnar.