143. löggjafarþing — 75. fundur,  13. mars 2014.

makrílviðræðurnar, munnleg skýrsla sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.

[16:04]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka þeim þingmönnum sem hafa tekið þátt í umræðunni. Það er gott tækifæri að fá að fara yfir þetta mál með þessum hætti svona fljótt eftir að þessir atburðir hafa gerst.

Ég vil byrja á að segja að staða okkar er ekki veik. Hún er auðvitað öðruvísi, en staða okkar er einfaldlega þannig að við stöndum á okkar rétti til að stýra okkar veiðum sjálf. Við stöndum á því grunnprinsippi að það eigi að stýra veiðum á sjálfbæran hátt.

Hér komu þingmenn og sögðu að hagsmunagæslan hefði ekki verið í lagi, við hefðum ekki náð að koma skoðunum okkar á framfæri. Hvað hafa menn gert síðustu fjögur ár í því að reyna að koma nákvæmlega þeim skoðunum á framfæri að sjálfbærni í að stjórna fiskveiðum sé lykilatriði? Það hefur greinilega mistekist gagnvart Evrópusambandinu síðustu fjögur árin. Hvað gerðist hér á síðustu vikunni? Evrópusambandið skipti um skoðun. Það hoppaði yfir á skoðun Norðmanna um að það væri í lagi að stunda óhóflegar veiðar.

Við skulum ekki vera með miklar yfirlýsingar hér gagnvart Færeyingum. Ég hef enga trú á að þeir hafi gert einhverja samninga bak við tjöldin fyrr en ég tek á því.

Það er ekki nýtt að við stöndum í fiskveiðideilu við Noreg þó að þetta sé vinaþjóð og grannþjóð og okkar helsta samstarfsþjóð á mörgum sviðum. Ég held að við ættum að halda áfram með samstöðu pólitískt, samstöðu um það verklag og þann málarekstur sem við höfum verið með.

Ég veit ekki hvað þeir þingmenn sem hér komu upp, hv. þingmenn Steingrímur J. Sigfússon, Össur Skarphéðinsson og Árni Páll Árnason, voru að meina þegar þeir sögðu að menn hefðu átt að troða sér inn í samningana, hefðu átt að gera eitthvað betra með einhverjum hætti. Voru þeir að leggja til að við minnkuðum þá hlutdeild sem við höfum náð samkomulagi um (Forseti hringir.) eða voru þeir að tala um að við hefðum átt að hoppa á vagninn með Evrópusambandinu um að henda fyrir róða sjálfbærnigrunnhugsuninni sem við byggjum okkar fiskveiðistjórn á? (Forseti hringir.) Staða okkar er sterk, við erum ábyrg fiskveiðiþjóð.