143. löggjafarþing — 75. fundur,  13. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[17:39]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Lilju Rafneyju Magnúsdóttur þetta andsvar sem hún veitir mér við þeirri stuttu fimm mínútna ræðu sem ég hafði til umráða áðan, seinni ræðu við fyrri umr. um þessa þingsályktunartillögu. Það er eðlilegt að hv. þingmaður spyrji út í sjávarútvegsmál, mjög eðlilegt. Við höfum lengi setið saman í nefndum Alþingis sem fjalla um sjávarútvegsmál og okkur eru þau kær, við komum bæði af landsbyggðinni og vitum um þýðingu sjávarútvegs á landsbyggðinni og fyrir land og þjóð. Þess vegna er mjög eðlilegt að spurt sé út í hann.

Hv. þingmaður las upp úr skýrslunni sem við höfum rætt, um varanlegar undanþágur, um eignarhald og veiðireynslu o.s.frv., og talaði um búsetu. Ég hef sagt og segi enn: Niðurstaða í sjávarútvegskaflanum, ef til samnings kemur, mun ráða afstöðu minni, hvort ég segi já eða nei við samningi á lokastigi. Þar eru mörg atriði sem koma til umfjöllunar.

Hér hefur verið rætt um sjávarútvegskaflann, og sérstaklega af hv. þm. Ragnheiði Ríkharðsdóttur og ég gerði það í einhverjar mínútur í tíu mínútna ræðu minni í gær þar sem ég fjallaði um það sem kemur fram í skýrslunni, og hina nýju sjávarútvegsstefnu Evrópusambandsins sem þó var ekki stimpluð endilega fyrr en í upphafi þessa árs. Það er sagt fyrir þá sem gagnrýna að sjávarútvegskaflinn hafi ekki verið opnaður, sá mikilvægi kafli. Sumir telja að hann hefði átt að koma fyrst og að það hefði átt fá niðurstöðu í hann o.s.frv. Skýringin var þessi: Evrópusambandið var að skoða stefnu sína og fara í gengum hana og hún, eins og hún birtist í skýrslunni, þessari ágætu skýrslu um þá kafla og málaflokka sem rætt er um, sýnir okkur auðvitað best og er besti rökstuðningurinn sem komið hefur fram síðustu mánuði (Forseti hringir.) fyrir því að við eigum að halda aðildarviðræðum áfram og komast að samkomulagi (Forseti hringir.) og fá samning til að bera undir þjóðina.