143. löggjafarþing — 76. fundur,  18. mars 2014.

um fundarstjórn.

[13:46]
Horfa

Róbert Marshall (Bf):

Virðulegur forseti. Það er gott að forseti gefur það til kynna hér að starf þingsins sé á áætlun og áætlunin muni halda. Auðvitað taka menn ákvarðanir í ljósi þeirrar stöðu sem upp er komin hverju sinni, um hvað þarf að gera. En eitt þarf að vera á hreinu milli minni hluta og meiri hluta í þinginu, það er ekki í boði að tala loðmullulega um þingsályktunartillögu um Evrópusambandið fram yfir sveitarstjórnarkosningar, humma það fram af sér með óskýrum yfirlýsingum um aðkomu þjóðarinnar og taka það síðan til efnislegrar afgreiðslu á sumarþingi.

Það þarf að vera alveg á hreinu hvað stjórnarmeirihlutann varðar að það er ekki í boði gagnvart minni hlutanum í þinginu eða gagnvart þjóðinni.