143. löggjafarþing — 76. fundur,  18. mars 2014.

heilbrigðistryggingar.

[14:15]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Herra forseti. Hér er fyrst og fremst og eingöngu um að ræða skrif hagfræðings þar sem hann — eftir því sem mér sýnist vegna þess að ég hef ekki lesið greinina sjálfa heldur einungis það sem um hana hefur verið sagt í fjölmiðlum, en við Ragnar Árnason höfum ekki rætt málið tveir saman — vekur athygli á hagfræðilegri hlið málsins og veltir því upp hvað mundi gerast ef markaðskerfið virkaði að fullu og allir mundu ráðstafa ráðstöfunartekjum sínum til að kaupa sér þær tryggingar sem viðkomandi teldu henta sér best hverju sinni, og hvernig slíkt kerfi kæmi út í samanburðinum þegar við veltum því fyrir okkur að tryggja alla að fullu.

Mér finnst þessi umræða í sjálfu sér ekki eiga erindi í þingsalinn þar sem þetta er ekki grein sem ég hef teflt fram. Ragnar Árnason er í ráðgjafaráðinu hjá efnahagsráðuneytinu en engar hugmyndir af þessum toga eru til skoðunar í ráðuneytinu, þ.e. að leggja niður almannatryggingakerfið.

Ég er hins vegar áhugamaður um að auka hlut einkaaðila í að veita hina opinberu þjónustu á kostnað ríkisins með þeirri fjármögnun sem við þekkjum í dag svo að við getum virkjað krafta einkaframtaksins í auknum mæli í heilbrigðiskerfinu og þannig hrint í framkvæmd þeirri tryggingastefnu sem við höfum byggt á á undanförnum árum. Ég vek athygli á því að hlutur einkaframtaksins í að veita þjónustu sem fjármögnuð er af hinu opinbera er langtum minni, mun minni en í fyrirheitna landi sósíaldemókrata, Svíþjóð. Þar er hlutur einkaframtaksins mun hærri. Ég tel að við gætum aukið framleiðni í kerfinu, fengið meira fyrir sama fjármagn með því að feta okkur inn á þær brautir.