143. löggjafarþing — 77. fundur,  19. mars 2014.

fiskeldi.

319. mál
[17:52]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Ég vil einkanlega spyrja hv. þingmann sem þingmann einmitt í fjárlaganefnd, sem þingmaðurinn vék að í máli sínu, aðeins um Matvælastofnun og fjárhag hennar — það eru sannarlega góðar og frómar fyrirætlanir hjá hæstv. ráðherra um að stofnunin eigi að afgreiða með einfaldari og skilvirkari hætti en verið hefur þær umsóknir sem berast og að ljúka eigi umfjöllun um þær innan sex mánaða og gefa út leyfi — hvort þingmaðurinn telji að Matvælastofnun sé fjárhagslega í stakk búin til þess eins og fjárveitingar hafa verið til hennar fyrir þetta ár og eins og umbúnaðurinn um fjárveitingarnar er í málinu eins og það liggur fyrir núna.

Ég vil líka inna þingmanninn eftir sjónarmiðum um skipulagsþátt málsins vegna þess að hluti leyfisveitinga hefur verið hjá heilbrigðisnefndum sveitarfélaganna eins og fram hefur komið, en færist þá til Matvælastofnunar. Mér hefur fundist það að mörgu leyti vera góður rökstuðningur við það einmitt hjá Vestfirðingunum að auka ætti skipulagsvald sveitarfélaganna þannig að það nái lengra en þau netlög sem hæstv. ráðherra gat um áðan, 115 metra út frá ströndinni, því að það hefur auðvitað mikil áhrif á ásýnd eins sveitarfélags, þ.e. sjókvíaeldi af þessu tagi og kannski eðlilegt að íbúarnir þar hafi um það að segja.

Að síðustu, einmitt til fjárlaganefndarmannsins líka, ráðherrann upplýsti að Norðmenn byðu þessi leyfi upp. Væri það ekki að mörgu leyti ákjósanlegri aðferð til dæmis í tilfellum þar sem tveir sækja um sama svæði, eins og þingmaðurinn nefndi í ræðu sinni, að í stað þess að láta þann sem fyrr sækir um fá svæðið að láta menn bara keppa einfaldlega með því að sá sem borgar best, (Forseti hringir.) hann fær það?