143. löggjafarþing — 78. fundur,  20. mars 2014.

utanríkis- og alþjóðamál.

418. mál
[11:33]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. utanríkisráðherra fyrir skýrsluna. Mig langar að spyrja um eitt tiltekið mál sem ber oft á góma, gýs reglulega upp í tengslum við utanríkismál. Það varðar eiginlega utanríkisstefnu forseta Íslands. Mér finnst það óþægilegt. Við erum hér með utanríkisráðherra í ríkisstjórn og við erum með stjórnarstefnu og hún er mörkuð með stjórnarsáttmála og með þingsályktunartillögum og frumvörpum og umræðu á Alþingi. Svo hefur þess gætt í vaxandi mæli á undanförnum árum að forseti Íslands virðist marka sér líka áherslur fyrir hönd þjóðarinnar á einhvern hátt í utanríkismálum. Hann lætur uppi þær áherslur að hann vilji að Ísland horfi meira til austurs, Rússlands og Kína. Hann segir ýmislegt um Evrópusambandsmál á erlendum vettvangi. Nú síðast setti hann ofan í við aðstoðarráðherra á opnum fundi.

Ég vil spyrja hæstv. utanríkisráðherra: Finnst honum þetta jafn óþægilegt (Forseti hringir.) og mér? Er eitthvert (Forseti hringir.) virkt samráð milli utanríkisráðherra og forsetans um stefnu í utanríkismálum?