143. löggjafarþing — 79. fundur,  24. mars 2014.

staða, stjórn og starfshættir þjóðkirkjunnar.

417. mál
[18:56]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir framsöguna. Ég er mjög hlynntur sjálfstæði þjóðkirkjunnar, megi hún verða sem sjálfstæðust, megi hún verða algerlega sjálfstæð reyndar, en ég velti fyrir mér fjármögnun. Í tölulið 2.a í 11. gr. frumvarpsins er prósentunni breytt; í stað 11,3% í 2. gr. laganna kemur 14,3%, og varðar þetta lög um kirkjumálasjóð, nr. 138/1993.

Það sem ég velti fyrir mér er að þegar kemur að ágreiningi um þjóðkirkjuna þá varðar hann ýmislegt. Til dæmis þykir mér persónulega mjög óeðlilegt, svo ekki sé meira sagt, að trúarleiðtogi leiðir þingmenn hingað í þinghúsið. Það er þess vegna sem ég tek ekki þátt í þeirri athöfn. Með fullri virðingu fyrir kristinni trú og þjóðkirkjunni sem stofnun finnst mér það bara ekki eðlilegt og þess vegna tek ég ekki þátt í því, en það er eitt.

Það sem veldur því að fólk leggur sig fram við að berjast gegn því til dæmis að þjóðkirkjan sé sérstaklega varin í stjórnarskrá er í raun og veru spurning um fjármál, spurningin um að þjóðkirkjunni sé hampað fyrir það eitt að vera trúarsöfnuður meiri hlutans Íslandi. Þess vegna langar mig að spyrja hæstv. ráðherra hvort hann telji koma til greina að veita öllum trúarsöfnuðum eða lífsskoðunarfélögum sem starfa á Íslandi ívilnanir til samræmis við það sem kemur fram í 11. gr., tölulið 2.a.