143. löggjafarþing — 80. fundur,  25. mars 2014.

menningarsamningar.

[14:44]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Vegna þess sem hér hefur verið spurt um og snýr að tímasetningu samninganna vil ég taka fram að við í ráðuneytinu höfum haft af því fregnir að menningarráðin hafi ekki treyst sér til að úthluta styrkjum þótt flest þeirra hafi auglýst eftir þeim nema niðurstaða fengist um endurnýjun menningarsamninganna. Ég ítreka að þessari óvissu hefur nú verið eytt. Það er búið að senda samningana tilbúna til undirritunar.

Það er rétt að taka það fram að ráðuneytið hefur allt þetta ár lagt á það áherslu að menningarráðunum væri í sjálfsvald sett að úthluta til nýsköpunarverkefna á sviði lista á meðan ákvörðun um menningartengda ferðaþjónustu lá ekki fyrir. Jafnframt var ekki lengur gerð krafa um stuðning við menningararf, samkvæmt viðaukanum frá 2012, þar sem málaflokkurinn er nú vistaður í forsætisráðuneytinu. Ég tel því að stuðningur til nýsköpunar á sviði lista ætti að geta verið nokkuð öflugur í ár.

Hér hefur verið spurt hvers vegna skorið var niður úr því málið er gott og nýtur góðs stuðnings. Rökin eru þau sömu og menn hafa staðið frammi fyrir í ríkisrekstrinum, t.d. varðandi niðurskurð til framhaldsskólanna. Ríkisendurskoðun benti á að á undanförnum árum frá hruni hafi verið skorið niður um 2 milljarða kr. í þá starfsemi. Það var ekki gert vegna þess að einhver ágreiningur væri um það hvort um væri að ræða góða starfsemi eða ekki, það var ill nauðsyn sem þurfti að grípa til vegna stöðu ríkisfjármála.

Í síðustu fjárlagagerð lá fyrir að það varð að ná jafnvægi í ríkisrekstrinum og þess vegna þurfti að skera niður mjög víða. Ég verð að segja fyrir mitt leyti að þetta var ekki auðveld eða einföld ákvörðun, en það markmið varð að nást að hægt væri að skila fjárlögum réttum megin við núllið.

Virðulegur forseti. Hvað varðar framtíðina held ég að við séum öll, ég, hv. málshefjandi og aðrir hv. þingmenn, sammála um að það séu gríðarleg sóknarfæri á þessu sviði og við eigum að geta náð góðri samstöðu um að efla starfsemina um allt land. (Forseti hringir.)