143. löggjafarþing — 80. fundur,  25. mars 2014.

náttúruvernd.

167. mál
[15:59]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Þetta eru góðar og gildar spurningar en ég veit ekki hvað ég á að telja mig vel búinn til að svara þeim að bragði. Út af fyrir sig hef ég ekki rekist á mikinn ágreining eða vandamál í sambandi við náttúrustofurnar og hlutverk þeirra í lagalegum skilningi. Það hefur auðvitað staðið talsverður styr eða verið nokkur glíma við að tryggja þeim rekstrarfé á undanförnum árum en hefur þó tekist, m.a. var fjárlaganefnd á síðasta kjörtímabili skilningsrík og viðhélt alltaf viðbótarfjárveitingum til náttúrustofanna. Þó má vel vera að ástæða sé til að skilgreina enn skýrar og betur hlut þeirra í stjórnkerfi og umsýslu og varðveislu náttúrunnar.

Varðandi hlut heimamanna í þeim efnum hef ég glímt svolítið við það. Ég var til dæmis nefndarmaður í Vatnajökulsþjóðgarðsnefndinni, þeirri sem vann mjög mikið starf til undirbúnings stofnunar Vatnajökulsþjóðgarðs. Á um tveggja ára tímabili ferðaðist ég um allt svæðið og átti fjölmarga fundi með heimamönnum á svæðunum um það mál sem ég held að hafi verið lykillinn að því að Vatnajökulsþjóðgarður varð yfirleitt til í þeirri stærð sem hann varð til. Það var að nefndin tók strax þá afstöðu að tengja heimamenn við þetta starf og fela þeim eins ríkulegt hlutverk í umsjón og ákvarðanatöku svæðisbundið innan garðsins og mögulegt var. Ég held að ákaflega mikilvægt sé að leita leiða eins og kostur er til að virkja heimafólk og taka tillit til sjónarmiða þeirra og hagsmuna þeirra í þessu, en þó þannig að sjálfsögðu að það samrýmist heildarmarkmiðum í landinu um náttúruvernd og um einsleitar reglur í þeim efnum. Ég held að við getum ekki haft mismunandi náttúruverndarlög í gildi á ólíkum svæðum í landinu. Það þarf því að sætta og leiða saman þau sjónarmið. Það er vissulega mjög mikilvægt.