143. löggjafarþing — 83. fundur,  27. mars 2014.

útreikningur örorkubóta.

[11:02]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka kærlega fyrir fyrirspurnina. Almannatryggingakerfið er sameiginlegt áhugamál mitt og hv. þingmanns sem og lög um félagslega aðstoð sem öryrkjar þurfa að treysta á hvað varðar framfærslu.

Eins og komið hefur fram í fréttum undanfarna daga, og ég veit að hv. þingmaður veit af, er í gangi vinna í ráðuneytinu um heildarendurskoðun á bótaflokkunum. Eitt af því sem nefndin er að skoða er einmitt skerðingar og það tengist náttúrlega því að þar er horft til þess að gera breytingar á örorkumatinu sjálfu og fara yfir í starfsgetumat. Ég hef einmitt fundið fyrir mjög miklum áhuga frá Öryrkjabandalaginu og Landssamtökunum Þroskahjálp til að horfa til þessara breytinga og síðan þess sem snýr að því að styðja þátttöku fatlaðs fólks og öryrkja á vinnumarkaðnum. Það er mjög mikil vinna í ráðuneytinu hvað það varðar.