143. löggjafarþing — 84. fundur,  31. mars 2014.

samningar við kröfuhafa gömlu bankanna.

[15:13]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf):

Virðulegur forseti. Í grein sem ber yfirskriftina „Þetta tækifæri kemur ekki aftur“ og var birt 24. apríl 2013, nokkrum dögum fyrir kosningar, sagði hæstv. forsætisráðherra, með leyfi forseta:

„Nú hafa flestir málsmetandi menn fallist á að það sé bæði framkvæmanlegt og nauðsynlegt að uppgjöri snjóhengjunnar, og þar með talið gömlu bankanna, ljúki með verulegri eftirgjöf kröfuhafanna og efnahagslegu svigrúmi fyrir Ísland. Menn hafa líka fallist á að hægt sé að ná þessari niðurstöðu hratt með skattlagningu ef samningaleiðin dugar ekki til.“

Hæstv. forsætisráðherra hélt áfram:

„Hópurinn sem stendur að vefsíðunni snjohengjan.is bendir á að eðlilegt svigrúm nemi þegar allt er talið um 800 milljörðum. Það er miklu meira en þarf til að leiðrétta stöðu heimilanna. Samhliða því er hægt að bæta stöðu ríkissjóðs og endurreisa velferðarkerfið.“

Í þættinum Forystusætið sem var á RÚV fyrir kosningar var hæstv. forsætisráðherra spurður af fréttamanni:

Getur þú ábyrgst að það fáist um 300 milljarðar á næstu fjórum árum út úr samningaviðræðum við kröfuhafa föllnu bankanna?

Hæstv. forsætisráðherra svaraði, með leyfi forseta:

„Ástæðan fyrir því að við treystum okkur til þess að tala svona skýrt í þessu máli er að það er alveg ljóst að þetta svigrúm verður að myndast.“

Ég upplifði það svo í síðustu kosningabaráttu að það væri algjört leiðarminni í málflutningi hæstv. forsætisráðherra að það yrði nauðsynlegt og skýrt og einfalt að semja við kröfuhafa erlendu bankanna og þá mundi myndast mjög mikið efnahagslegt svigrúm, nokkur hundruð milljarðar, sem mætti nota ekki bara til skuldaleiðréttingar heldur ýmislegs annars.

Ég skildi þetta fyrir mitt leyti aldrei almennilega. Við í Bjartri framtíð sögðum að okkur þætti þetta mjög óútfært. Ég hef síðan spurt hæstv. forsætisráðherra hér í þessum sal hvernig þessar samningaviðræður gangi og hef fengið þau svör að það sé mjög óskynsamlegt að fara í svona samningaviðræður við kröfuhafana. Gott og vel, þau svör hafa verið alveg skýr, en þá langar mig að spyrja hæstv. forsætisráðherra:

Talaði hann gegn betri vitund í kosningabaráttunni?