143. löggjafarþing — 84. fundur,  31. mars 2014.

um fundarstjórn.

[18:51]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þurfti nú að láta segja mér það þrem sinnum að til stæði að breyta dagskrá morgundagsins þar sem ætlunin var að mæla fyrir frumvörpum ríkisstjórnarinnar um skuldaleiðréttingar, stórmál ríkisstjórnarinnar, aðalkosningaloforð síðustu kosninga, málið sem beðið hefur verið eftir. Ákveðið var að mæla fyrir þeim á morgun og ég þurfti að láta segja mér það þrem sinnum hér áðan að komið hefði fram á þingflokksformannafundi að ekki gengi að mæla fyrir málunum af því að það væri 1. apríl. Þetta er auðvitað ekki boðlegt, herra forseti. [Hlátur í þingsal.]

Ef fólk hefur ekki meiri trú á málatilbúnaði sínum en svo, ef fólk trúir ekki á þau mál sem það setur fram meira en svo að það geti ekki mælt fyrir þeim þann 1. apríl þá gef ég bara ekkert fyrir trú og sannfæringu á þann málstað, herra forseti.