143. löggjafarþing — 85. fundur,  31. mars 2014.

fjármálastöðugleikaráð.

426. mál
[20:45]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir yfirferðina. Það er mjög ánægjulegt að heyra á hv. þingmönnum stjórnarandstöðunnar að það virðist vera góður pólitískur samhljómur með þessu máli. Ég ætla svo sem ekki að lengja umræðuna mikið. Það er þó eitt sem ég vildi minnast á. Hæstv. ráðherra fór yfir þrjá þætti sem lægju til grundvallar, í fyrsta lagi hvort það væri nægilegt eftirlit með kerfinu í heild, svo vísaði hann til hvata sem væru á þann veg að hagnaður færi til eigenda en tap til skattgreiðenda og loks að þetta væri þá hugsað sem viðbrögð við fjármálakreppu, ef hún kæmi upp værum við með kerfi sem tæki á því.

Ég vildi taka sérstaklega á öðrum þættinum sem snýr að þessum óeðlilegu hvötum. Þrátt fyrir að það hafi verið góður vilji hjá ráðamönnum hér og í öðrum þeim löndum sem við berum okkur saman við til að koma í veg fyrir þennan óeðlilega hvata sem er grunnurinn að stærsta vandanum þegar kemur að fjármálakreppu, þ.e. að einkarekin fyrirtæki, a.m.k. bankar og fjármálastofnanir, eru að stórum hluta má segja í fanginu á skattgreiðendum, meðan við komum ekki í veg fyrir það og náum að snúa okkur út úr því er alltaf ákveðin hætta fyrir hendi. Við tókum þessa umræðu mjög á sínum tíma þegar við gengum frá lögunum um fjármálafyrirtæki árið 2009 og allir sem tóku þátt í þeirri umræðu, bæði í hv. viðskiptanefnd og í þingsal, voru sammála um að það væri langur vegur frá að við værum búin að koma okkur út úr þeirri stöðu. Það er kjarni málsins. Við verðum að byggja hér upp fjármálakerfi sem er á ábyrgð eigenda fjármálakerfisins þannig að ef fyrirtækjum gengur ekki vel eða þau gera slík mistök að þau riða til falls, eða líkur eru á því, verði eigendur fyrirtækjanna að bera þá ábyrgð. Það er ekki ásættanlegt að vera með þessa atvinnustarfsemi á þeim stað að skattgreiðendur þurfi að bera skaðann ef illa gengur.

Svo sannarlega erum við Íslendingar ekki einir hvað þetta varðar. Við getum alveg fullyrt að þetta er í það minnsta vestrænt vandamál, þ.e. þetta er í öllum þeim löndum sem við berum okkur saman við, iðnríkjunum. Stærsti hluti heimsins er á þeim stað.

Ég veit ekki hverjir eru komnir lengst í að koma upp kerfi sem er þannig að skattgreiðendur þurfa ekki að bera kerfislega áhættu og skaðann ef illa fer. Ég veit þó að við ættum að setja okkur það mark að komast þangað. Þótt þetta kerfi verði gott þegar menn klára málið ef þetta verður að lögum, sem ég hef nú fulla trú á, er það hins vegar alltaf til komið vegna þess að menn hafa áhyggjur af þessum óeðlilegu hvötum sem hæstv. ráðherra nefndi.

Ég vildi bara leggja áherslu á það í þessari ræðu að það er kjarni vandans og það er verkefni okkar að reyna hvað við getum til að vinna bug á honum.