143. löggjafarþing — 86. fundur,  1. apr. 2014.

örnefni.

481. mál
[15:38]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra ræðuna. Mér finnst nokkuð vel gerð grein fyrir samráðsferli og bakgrunni þessa frumvarps, en það eru tiltekin mál sem mig langar til að spyrja um.

Mig langar í fyrsta lagi að spyrja um samstarfið við Landmælingar Íslands, þ.e. samstarf að því er varðar örnefnaþekjuna og það hvernig því er síðan varpað á kort. Þarna hefur verið um töluvert samstarf að ræða en eins og ég skil frumvarpið er verið að festa það enn frekar í sessi, m.a. með því að kveðið er á um að ráðherra skipulagsmála komi að samningu reglugerðar um innihald, skráningu og tilhögun örnefnagrunns. Mig langar að biðja hæstv. ráðherra að skýra betur hvað átt er við þarna með innihaldi slíkrar reglugerðar af hendi umhverfis- og auðlindaráðherra eða ráðherra skipulagsmála.

Þarna er í raun um að ræða tvíþætt verkefni; annars vegar ákvæði um anga minjaverndar og hins vegar lifandi þróun tungunnar og nýjar nafngiftir, eins og fram kom í framsögu ráðherrans. Þá vil ég spyrja um þann hluta sem lýtur að söfnun þeirra örnefna sem eru að hverfa úr daglegu lífi með því að kynslóðir fara, vegna þess að það hefur ekki verið svo að ég viti skipulega séð til þess að kallað sé með tæmandi hætti eftir þeim örnefnum sem eru bara í munnlegri geymd eða fyrst og fremst í munnlegri geymd. Þá er ég að tala um þéttofið net örnefna á tilteknum svæðum og jafnvel bara á tilteknum litlum svæðum eða jörðum úti um land.