143. löggjafarþing — 88. fundur,  1. apr. 2014.

frestun verkfallsaðgerða á Herjólfi VE.

536. mál
[23:20]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við skulum einmitt deila um efnislegt innihald málsins. Um það snýst málið. Það sem ég setti út á í ræðu þingmannsins og fannst afar ósanngjarnt var að sett væri út á vinnubrögð þegar kallað var eftir því af stjórnarandstöðunni fyrr í dag að málið yrði unnið hratt og örugglega. Það er nákvæmlega það sem var gert.

Hvaða fordæmi höfðum við til að fara eftir? Jú, það hvernig sambærilegt mál var unnið í tíð síðustu ríkisstjórnar sem hv. þingmaður sat í. Við gengum lengra og ég held að það eigi að fagna því í staðinn fyrir að koma hér upp og gagnrýna málsmeðferðina sem var ekki gagnrýnisverð, ætla ég að leyfa mér að fullyrða.

Það er alveg rétt að við erum ekki sammála um hvort efnisskilyrðin séu uppfyllt eða ekki, það er hárrétt. Ég er þeirrar skoðunar að þeir almannahagsmunir sem snúa að samfélaginu í Vestmannaeyjum séu það miklir og það ríkir að þeir kalli því miður á að sett séu lög á verkfallið. Því miður.

Það er ekki létt verk að taka þá ákvörðun, virðulegi forseti, okkur greinir bara á um hvort skilyrðin séu uppfyllt eða ekki. Gott og vel.

Hér var vitnað í þá lögspekinga sem komu fyrir nefndina. Ég vil taka fram að þeir voru algjörlega sammála um að dómstólar hafi gefið löggjafanum talsvert svigrúm til að meta hvort almannahagsmunir væru fyrir hendi sem réttlættu að setja lög á verkföll. Það er staðan og við komumst að þeirri niðurstöðu að yfirveguðu mati. Gott og vel ef menn eru ósammála um það, það er eins og gengur og gerist, en ég verð þó að lýsa yfir vonbrigðum mínum með að menn skuli ekki taka þá ábyrgu afstöðu sem ég hélt reyndar að væri fyrir hendi (Forseti hringir.) þegar ég hlustaði á stjórnarandstöðuna hér í dag, en hún virðist nú hafa skipt um skoðun.