143. löggjafarþing — 88. fundur,  1. apr. 2014.

frestun verkfallsaðgerða á Herjólfi VE.

536. mál
[23:25]
Horfa

Frsm. meiri hluta um.- og samgn. (Unnur Brá Konráðsdóttir) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna og samstarfið í nefndinni og eins fyrir að greiða fyrir því að málið kæmist á dagskrá í dag. Það er mikilvægt.

Mig langar að beina þeirri spurningu til hv. þingmanns vegna þeirrar umræðu sem skapaðist hér áðan um lagasetningu frá 2010 varðandi flugvirkjana: Telur hv. þingmaður að sú lagasetning hafi staðist þær kröfur sem tilvitnaður hæstaréttardómur leggur fram? Þar var um að ræða að verkfall var boðað og sett voru lög á boðað verkfall. Það fór í gegnum þingið á mjög skömmum tíma. Það voru færri gestakomur en hjá okkur í nefndinni í kvöld og ég held því fram að í því máli sem við fjöllum um hér séu mun ríkari almannahagsmunir í húfi. Við erum hér með eitt samfélag þar sem skerðingin á grunnþjónustu er slík að öryggi og efnahag Eyjanna er mjög ábótavant meðan þetta ástand varir. Þjóðvegur milli lands Eyja, það er það sem við getum kallað Herjólf. Ég held því fram að ef staðan væri sú að hér væru einhvers konar verkfallsaðgerðir sem hefðu það í för með sér að Hellisheiðin væri lokuð nema í tvo klukkutíma á dag og að á þessum tveim klukkutímum mættu aðeins 200 bílar fara í gegn þá settum við í þinginu lög á slíkar aðgerðir.

Nú erum við hins vegar með samfélag sem er aðeins fyrir utan höfuðborgarsvæðið, það er engu að síður gríðarlega stórt samfélag. Ég held því fram, og tek þar undir með bæjarráði Vestmannaeyja, að samgöngur milli lands og Eyja séu ekki munaðarvara heldur sjálfsögð grunnþjónusta. Þess vegna eru það ríkir almannahagsmunir að við grípum inn í þegar ekki semst þegar kjaradeila hefur staðið jafn lengi (Forseti hringir.) og raun ber vitni og ekki sést til lands í samningnum.