143. löggjafarþing — 91. fundur,  7. apr. 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

485. mál
[16:19]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég tek undir það að það framsal sem felst í frumvarpinu verður að koma til skoðunar í myndinni. Ég mundi ekki hafa neitt á móti því ef þingið kallaði t.d. eftir því að útreikningar væru á endanum kynntir fyrir þinginu enda væri það ekki til að tefja fyrir framkvæmd málsins, a.m.k. í þingnefnd ef til þess kæmi. Aðrar lagalegar hliðar málsins verða að koma til skoðunar í nefndinni en að mínu mati stenst þessi framsetning fyllilega lög.

Varðandi lánsveðshópinn þá nýtur hann góðs af þessum aðgerðum með þeim hætti að hann á rétt á leiðréttingu í samræmi við það sem segir í frumvarpinu vegna verðtryggðra lána sem voru til staðar á árinu 2008 og 2009 eins og allir aðrir, enda hafi lánið verið tekið til öflunar eigin húsnæðis o.s.frv. Aðrar aðgerðir sem verið hafa til umræðu vegna lánsveðshópsins hafa snúist um það að færa að fullu niður lánsveð og það er annars konar aðgerð (Forseti hringir.) sem ekki er undir í þessu máli.