143. löggjafarþing — 91. fundur,  7. apr. 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

485. mál
[18:09]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Mér heyrist hv. þingmaður láta að því liggja að munurinn á kreppunni hér og í evruríkjum hafi verið sá að hér hækkaði höfuðstóll verðtryggðra lána en annars staðar varð eignarýrnun. Mundi ekki hv. þingmaður taka undir að 40% lækkun á raunverði íbúða í kjölfar hrunsins hafi verið eignarýrnun á Íslandi? Kemur sams konar eignarýrnun og varð í evruríkjunum ekki að auki á Íslandi og það ofan á hækkun höfuðstóls verðtryggðra lána? Er það ekki það sem við erum að glíma við? Hv. þingmaður getur varla talað um einhvern sérstakan mun í þessu samhengi.

Svo bið ég um smáskýringu á einu. Hv. þingmaður talaði um að 30% vanskil væru á húsnæðislánum en samkvæmt mínum kokkabókum og þeim skýrslum sem ég hef lesið eru vanskil í kringum 16%. Mig langar að vita hvaðan 30% talan kemur.