143. löggjafarþing — 91. fundur,  7. apr. 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

485. mál
[20:56]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég held að þetta sé ein af þeim spurningum sem á að svara í nefndinni. Hvernig verður tilfærslan í samfélaginu og hvernig er staðan miðað við fasteignaverð? Eins og ég nefndi áðan hefur forsendubresturinn verið gríðarlegur í mörgum sjávarbyggðum og smærri byggðum. Bara þegar þú kemur upp á Akranes eða í Árborg þá er það þannig að ef menn byggja hús þá selja þeir það með 20% lækkun á fyrsta ári. Það er meira en sá forsendubrestur sem verið er að leiðrétta hér. Það vitum við. Ef við kaupum eða byggjum hús á þessum svæðum þá fellur endursöluverðið — þetta er eins og bíll — um 15–20%. Er það forsendubrestur eða er það eitthvað sem við vitum af þegar við fjárfestum þar? Svo getum við farið lengra út á land eins og á Vestfirðina þar sem þetta er miklu minna. Íbúðalánasjóður ásakar fólk um að búa til innri viðskipti þegar verið er að selja heilu einbýlishúsin á 14–15 millj. kr., stór einbýlishús, að verið (Forseti hringir.) sé að reyna að fá út aukið lán með því að hækka verðið, svo miklu lægra er íbúðaverð á þessum slóðum. Þarna er fólk sem hefur einhvern tíma byggt og aldrei fengið leiðréttingu fyrir því verðhruni sem varð á þessum svæðum.