143. löggjafarþing — 91. fundur,  7. apr. 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

485. mál
[21:23]
Horfa

Elsa Lára Arnardóttir (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Steinunni Þóru Árnadóttur fyrir ræðuna. Hv. þingmaður talar um að 80 milljarðar kr. séu teknir af almannafé í þessa beinu aðgerð. Mig langar að benda á að þessir fjármunir koma með því að skattleggja þrotabú gömlu bankanna. Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort hún sé á móti þeirri skattlagningu að fjármálastofnanir greiði til baka hluta af þeim skaða sem hér varð í kjölfar efnahagshrunsins.

Einnig kemur hv. þingmaður inn á það að aðgerðin nái að mestu til tekjuhárra einstaklinga eða fjölskyldna og að verið sé að færa fé frá þeim tekjulágu til þeirra tekjuhærri, en það er staðreynd að 60% af aðgerðinni fara til heimila þar sem hjón hafa samtals um 670 þús. kr. eða minna á mánuði, sem gerir rétt um 300 þús. í heildarlaun. Þarna horfum við t.d. á grunnskólakennaralaun. Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort hún telji þann hóp og þá sem eru lægra settir en það til hátekjuhóps.