143. löggjafarþing — 92. fundur,  8. apr. 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

485. mál
[15:48]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Spurning mín um verðbólgu snerist ekkert um verðbólguskot. Hún snerist bara um verðbólgumarkmið Seðlabankans til að mynda, sem við erum sem betur nokkurn veginn í núna En ef þessar aðgerðir auka verðbólgu, eins og sumir spá, og hún verður kannski 3,5–4% og ekkert verðbólguskot, gerist þetta samt sem áður.

Gera menn sér grein fyrir því, virðulegi forseti, að um 20 millj. kr. lán sem stóð á skattskýrslu fyrir árið 2008 hafði hækkað upp í 21,5 millj. kr. árið eftir, bara út af vísitölutryggingu og uppreikningum, þrátt fyrir að búið væri að borga tæpa milljón niður af viðkomandi láni á því ári? Verðbólguáhrifin á þessa skuldaleiðréttingu eru sannarleg. Það er þetta sem svo margir þingmenn Framsóknarflokksins hafa lofað að komi fram. (Gripið fram í.) Jú, vinnuhópurinn sem skilaði minnihlutaáliti og meirihlutaáliti, við vitum hvernig það var. Við höfum lesið álitin og hlustað á umræður, t.d. frá þeim sem skrifuðu minnihlutaálitið og telja það algjöra forsendu að verðtrygging af þessum eldri lánum, sem munu fá skuldaleiðréttingu, verði afnumin.

Ég segi fyrir mitt leyti, virðulegi forseti, ég skil ekki hvernig hægt er að afnema verðtryggingu afturvirkt, það er bara ekki hægt í mínum huga. En það er sannarlega hægt að gera breytingar eins og hæstv. fjármálaráðherra var að tala um á lánaskilmálum á komandi tíma og því sem tekið er eftir þennan dag. Það er hægt í dag. Menn geta fengið óverðtryggð lán með föstum vöxtum, sem eru hjá mörgum lánastofnunum fastir til fimm ára, en þá kemur til uppreikningur þannig að það er ekkert nýtt. Síðan má leiða hugann að því, virðulegi forseti, hvort það sé ekki nauðsynlegt að bjóða upp á fleiri flokka. Það er kannski eins og hæstv. fjármálaráðherra (Forseti hringir.) sagði og endaði sitt andsvar á um verðbólguskot, eins og (Forseti hringir.) reyndist 2008 og 2009. Þar er um að ræða verðtryggð lán sem hent var svo aftur fyrir verðbólguhækkanir (Forseti hringir.) og koma þær greiðslur ekki til (Forseti hringir.) á því ári heldur leggjast við höfuðstól.