143. löggjafarþing — 92. fundur,  8. apr. 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

485. mál
[20:35]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg):

Frú forseti. Við ræðum frumvarp hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra um leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána.

Það sem hefur mikið verið í umræðunni undanfarna tvo daga er svokallaður forsendubrestur og að það sé hann sem þurfi að leiðrétta. Þetta er að sönnu mikilvægt að hafa með í umræðunni og það er mikilvægt að við þingmenn áttum okkur á því að þarna undir geta verið mjög margir mismunandi hópar sem urðu fyrir þessum forsendubresti. Frumvarpið tekur ekki á nema örfáum þeirra, frumvarpið tekur þéttast á þeim og af mestri festu sem skulda mest og eiga mest en lætur í rauninni hina liggja óbætta hjá garði.

Hv. stjórnarþingmenn hafa komið hér í dag og afsakað þennan forsendubrest í frumvarpinu með því að segja: Ja, frumvarpið er ekkert um þetta. Þess vegna þurfum við ekkert að gera það.

Þetta er hundalógík, ef svo má að orði komast, vegna þess að ef það er réttlætanlegt að leiðrétta einhvers konar skerðingu sem einn hópur í samfélaginu hefur orðið fyrir verðum við í sömu andrá að ræða aðra hópa sem standa alveg jafn illa og jafnvel miklu verr út af sama gjörningi í hagkerfinu. Það er lykilatriði.

Ég ætlaði aðeins að tala um þessa hópa, frú forseti. Tökum til að mynda leigjendur. Við vitum að fjöldinn allur af fólki er á leigumarkaði þar sem leigan ræðst af breytingum á vísitölu. Þetta fólk sem hefur ekkert getað gert í þeim málum að leigan hækki hefur orðið fyrir umtalsverðum forsendubresti. Það þarf núna að borga 30–40% hærri leigu miðað við það sem það borgaði árið 2007 vegna þess að verðbólgan fór langt fram úr væntingum. Við ætlum bara að leyfa okkur, þ.e. hv. stjórnarþingmenn ætla að leyfa sér að horfa fram hjá því — vegna þess að frumvarpið fjallar ekkert um þetta. Þá þarf ekkert að skoða það neitt frekar, frú forseti. Þetta er ekki gott.

Tökum líka þá sem skulda verðtryggð námslán. Fjöldinn allur af fólki í þessu samfélagi er með námslán sem nema milljónum og einstaka milljónatugum. Ég þekki fólk sem er með námslán sem stappa nærri 20 milljónum. Á sömu forsendum má ætla að á árabilinu 2007–2009 hafi lánabyrði þeirra sem eru með 10 milljóna námslán hækkað á bilinu 2,5–3 milljónir. Frú forseti virðir mér til vorkunnar að ég er ekki mjög fljótur í hugarreikningi en þessi upphæð er á þessu bili. Það þýðir fyrir þessa einstaklinga að þeir verða þó nokkrum árum lengur að greiða af námslánum sínum. Það eru kannski árin sem þeir ætluðu að nota til að safna til elliáranna en þá fer áfram ákveðin prósenta af launum þeirra í að greiða af námslánum — út af forsendubresti.

Okkur er alveg sama um þetta fólk, þ.e. hv. stjórnarþingmönnum er alveg sama um þetta fólk vegna þess að frumvarpið fjallar ekki um það. Þetta er ekki boðlegt og á þessu þarf að taka í nefndarstarfi þegar rætt verður um frumvarpið. Það er afar mikilvægt vegna þess að við verðum að horfast í augu við það að ef við ætlum að leiðrétta einhvern forsendubrest hjá einhverjum tilteknum hópi í samfélaginu kemur sú krafa að við gerum það líka fyrir aðra. Það er algjörlega ljóst.

Því hefur verið haldið fram að hér séum við að tala um almenna aðgerð en það er rangt. Þetta er ekki almenn aðgerð, þetta er sértæk aðgerð fyrir þá sem skulda tiltekna tegund af húsnæðislánum.

Það hefur verið komið inn á það hér í dag að niðurfellingin svokallaða, eins og hún hefur verið kölluð, gangi fyrst til þess að greiða niður þann hluta húsnæðislána sem hefur farið inn á greiðslujöfnunarreikning hjá þeim sem fóru í svokallaða greiðslujöfnun, eins og þingmönnum er kunnugt um. Það þýðir náttúrlega að hagur þessara fjölskyldna frá degi til dags batnar ekki neitt eða sáralítið, gerir það kannski í framtíðinni. En hvað gerist þá þegar þeir sem eru ekki í neinum greiðsluvanda fá 3–4 millj. kr. gjafagjörning frá ríkinu en hinir sem eru í greiðsluvanda fá hann kannski að mjög litlu leyti? Það sem að minnsta kosti við félagshyggjufólk viljum ekki að gerist í samfélaginu, bilið milli þeirra sem eru ríkir og fátækir, þeirra sem eiga og hinna sem eiga ekki, breikkar.

Er það markmiðið með frumvarpinu?

Þessu verður að svara í nefndarstarfinu, það er afar mikilvægt.

Og hvað með eldra fólkið sem til að mynda býr í leiguíbúðum á vegum félagasamtaka úti um allan bæ sem hefur ekki einu sinni tækifæri á að auka tekjur sínar þegar forsendubresturinn hittir það fyrir? Hvað á það fólk að gera?

Ég ætla að segja ykkur, hv. þingmenn, eina sögu. Ég hitti í hinu starfinu mínu margt eldra fólk. (ÖS: Yngra en hér.) Hér kallar einn hv. þingmaður fram í fyrir mér og telur upp það eldra fólk sem ég hitti á þinginu. Það er rétt, það er allt sómafólk líka. En ég hitti í starfi mínu margt fullorðið fólk. Margt þetta fólk þarf að framfleyta sér á strípuðum lífeyri almannatrygginga sem er 205–206 þús. kr. á mánuði. Sumir hafa lífeyristekjur og hafa þess vegna á einhverjum tímapunkti getað komið sér í þær álnir að geta búið í aðeins dýrara húsnæði.

Í dag talaði við mig einn eldri maður sem leigir hjá félagasamtökum hér í bæ. Hann greiðir núna af lífeyrinum sínum 300 þús. kr. í leigu af íbúð hjá frjálsum félagasamtökum í Reykjavík. Fyrir hrun var þessi upphæð miklu lægri vegna þess að þessi maður býr við leigu sem er bundin vísitölu. Við ætlum ekkert að hjálpa honum. Hann sagði við mig í dag: Peningarnir mínir verða búnir eftir þrjá, fjóra mánuði og þá hef ég ekki lengur efni á að búa hérna. Hvað á ég að gera þá?

En, nei, það þarf ekki að leiðrétta forsendubrestinn hjá þessum einstaklingum. Gamla fólkið, leigjendur, námsmenn, fólk sem skuldar námslán, það þarf ekki að leiðrétta neitt hjá því fólki. Og þá kemur að því aftur, frú forseti, sem er kannski alvarlegi gallinn í þessu frumvarpi sem hefur verið haldið fram að sé almenn aðgerð, að hún er afar sértæk. Hún er sértæk á vitlausum kanti. Því þurfum við að breyta.

Því hefur líka verið velt upp í umræðunni hvort þetta sé skynsamlegasta notkunin á skattfé. Á það hefur verið bent hér í dag, m.a. í ágætri ræðu hv. þm. Oddnýjar Harðardóttur, að í kringum 30 milljarðar fara til fjölskyldna sem hafa yfir 8 milljónir í árstekjur. Ég velti fyrir mér hvort ekki væri betra ef að minnsta kosti einhver hluti þessarar upphæðar færi til annarra verkefna úr því að við erum í færum til að nota skattfé í eitthvað annað en að borga niður skuldir og halda uppi þeirri þjónustu sem þó þarf að halda uppi í samfélaginu. Væri ekki betra að nota einhvern hluta af þessum fjármunum til að byggja nýjan spítala, fjölga hjúkrunarrýmum?

Ég sé að hv. þm. Þorsteinn Sæmundsson er í salnum. Í kjördæmi hv. þingmanns er sár skortur á hjúkrunarrýmum. Mundi hann ekki vilja nota eitthvað af þessum peningum sem þarna er búið að finna í vondu bönkunum til að byggja hjúkrunarrými, bæta kjör eldra fólks í kjördæmi þingmannsins? Ég mundi halda að það gæti verið miklu betri og skynsamlegri nýting á fjármunum sem menn halda fram að séu í hendi og að við getum gefið frá ríkissjóði með þeim hætti sem þarna er talað um.

Þegar verið er að deila út almannafé eins og hér er gert þarf virkilega að vanda til verka. Það er mjög alvarlegt að í undirbúningi þessa frumvarps skuli ekki vera búið að reikna út hversu stór hluti þeirra sem fengu úrræði í tíð síðustu ríkisstjórnar fær lítið eða ekkert út úr þessari aðgerð. Ef það er mjög stór hluti erum við í rauninni fyrst og fremst að tala um að færa fjármuni til einstaklinga og fjölskyldna sem eru ekki í neinum greiðsluvanda. Á það að vera verkefni ábyrgra stjórnvalda? Á það ekki miklu frekar að vera verkefni stjórnvalda að huga að hag allra landsmanna, þeirra sem kannski eiga í mestum vanda, líkt og síðasta ríkisstjórn gerði? Raunar hefur komið fram í máli hv. stjórnarþingmanna í dag að það hafi verið býsna vel gert. Það er ástæða til að þakka þeim fyrir þau hlýju orð í garð fyrri ríkisstjórnar. Það er samt líka þannig að jafnvel núverandi stjórnarþingmenn sjá að síðasta ríkisstjórn gerði býsna vel í þessum málum.

Frú forseti. Hv. efnahags- og viðskiptanefnd á fyrir höndum erfitt og ærið verkefni við að svara öllum þeim spurningum sem hafa komið fram við umræðuna undanfarna tvo daga. Þetta er mikið verkefni en það er líka mikið í húfi að tryggja að skattfé nýtist sem allra best og mest í þágu þeirra sem raunverulega þurfa á því að halda.