143. löggjafarþing — 92. fundur,  8. apr. 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

485. mál
[21:04]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Þorsteini Sæmundssyni hugvekjuna. Hann nefndi Vífilsstaði, bráðabirgðaúrræði í kjördæmi okkar beggja fyrir eldra fólk sem er að bíða eftir hjúkrunarrými í því sem kallast varanleg vistun. Ég veit ekki hvort þingmaðurinn hefur kynnt sér þá starfsemi sem fram fer á Vífilsstöðum eða aðdraganda þess að starfsemi var hafin þar, en í þeim aðdraganda var deildum á Landspítalanum lokað, deildum þar sem aldrað fólk var fyrir til að opna suður á Vífilsstöðum. Hver er lógíkin í því?

Hv. þingmaður nefnir einnig að aðgerðirnar bjargi ekki öllum. Það er hárrétt hjá þingmanninum. Ég vinn allajafna við heilbrigðisstörf og stundum við það að bjarga fólki sem er í vanda eða mikið veikt. Ef ég þyrfti að velja, hv. þingmaður, á milli tveggja einstaklinga sem þyrfti að hjálpa mundi ég alltaf velja þann veikari fyrst.