143. löggjafarþing — 94. fundur,  9. apr. 2014.

fjögurra ára samgönguáætlun 2013--2016.

495. mál
[19:09]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Forseti. Mér leiðist nú hálfpartinn þegar fólk þakkar málefnalega ræðu eða eitthvað slíkt, vegna þess að ég held að við reynum öll að hafa það þannig. En ég vil þakka þessa ræðu af því að hún gaf svo skemmtilega sýn á samgöngumálin sem þykja yfirleitt ekki neitt óskaplegt — ja, ég ætla ekki að nota orðið sem mér dettur helst í hug. En bæði þetta síðasta, sem hv. þingmaður kom inn á, með hjólaleiðir á Suðurlandi; samgöngur eru náttúrlega mjög merkilegar að því leyti að þær skapa það umhverfi sem við búum í. Einhvern tíma las ég að þegar brýr væru byggðar yrði umferðin yfir þær yfirleitt margföld á við það sem nokkur hefði þorað að trúa á í áætlunum sínum. Það á við um Hvalfjarðargöngin sem voru hér til umræðu.

Mig langar aðeins að koma inn á það sem hv. þingmaður talaði um, þetta með einkaframkvæmdirnar. Ég er mög sammála honum í því að ef stórar framkvæmdir fara í einkaframkvæmd verða hagnaðarsjónarmið ofan á. Hann talaði líka um framkvæmdir hér í kringum Reykjavík, um Sundabrautina. Nú skilst mér að fyrirætlanir séu um að hún fari einmitt í einkaframkvæmd.

Varðandi almenningssamgöngurnar úti á landi, (Forseti hringir.) hvernig sér þingmaðurinn fyrir sér að skipuleggja mætti þær betur, t.d. á Austurlandi, sem hann talaði um?