143. löggjafarþing — 95. fundur,  10. apr. 2014.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

511. mál
[23:39]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Jú, það er rétt að verkefnisstjórn fylgir ferlinu og er því alveg trú. Á þau rök get ég alveg fallist.

Ég benti á í ræðu minni að mér fyndist það vera hlutverk okkar stjórnmálamanna að skoða hvernig við gætum bætt þetta ferli. Það sem ég hef áhyggjur af, og viðraði þær áhyggjur einmitt við fulltrúa verkefnisstjórnarinnar, er að samfélagslegu áhrifin hafi lítið verið metin í öllum þessum virkjunarkostum. Skýringar eru þær að menn segjast ekki alveg treysta sér í þau fræði, það sé svo erfitt að meta samfélagslegu áhrifin, við eigum bara ekki nægilega sterka fagaðila á þeim sviðum til þess að gera það á fullnægjandi hátt. Þá segi ég: Þá er okkar að leysa úr því. Við getum ekki verið með rammaáætlun sem við segjum að byggi á hugmyndafræði sjálfbærrar þróunar og sagt að við ætlum að meta umhverfisáhrif, efnahagsleg áhrif og samfélagsleg áhrif, ef við síðan gerum það ekki með fullnægjandi hætti.

Vissulega voru þetta nýjar upplýsingarnar sem bættust við. Ég tel hins vegar að við þurfum að vinna að því hvernig við getum bætt þetta ferli.

Annað sem ég nefndi var til að mynda umhverfiskostnaðurinn sem er mjög erfitt að meta og nokkuð sem við höfum kannski ekki alveg fullnægjandi tök á að meta. Þetta er eitthvað sem ég held að við hljótum að vera með í ákveðnum prósess eftir því sem reynslan kemur á rammaáætlun hvernig við getum bætt ferlið og tekið inn þá þætti sem við ætlumst til að séu þar ef við erum að horfa út frá þeim grunni sjálfbærrar þróunar sem er getið um í lögunum.