143. löggjafarþing — 95. fundur,  10. apr. 2014.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

511. mál
[23:48]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég verð að taka undir með þeim sem hér hafa talað um að það sé ekki vinnandi vegur að ætla okkur sem höfum verið hér í allan dag að ræða mál sem við töldum að væri á málefnasviði umhverfis- og samgöngunefndar. Það er eiginlega ekki á okkur leggjandi, sem eigum eftir að lesa þessar 2.000 blaðsíður, að halda hér áfram fundi mikið lengur því að fundur í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd, þangað sem ég ætla að mæta í fyrramálið, hefst eftir átta tíma. Mér finnst ekki mikill bragur á því. Ég er ansi hrædd um að ræða mín á morgun verði innihaldsrýrari með hverri mínútunni sem þingfundur heldur áfram og muni kannski snúast um eitthvað allt annað en sparisjóðaskýrsluna.

Miðað við það að hér hafi verið kvöldfundir alla vikuna algerlega andmælalaust af hálfu stjórnarandstöðu — hér hafa verið mjög stór mál, mælt hefur verið fyrir risavöxnu máli um að leiðrétta skuldir upp á 80 milljarða og það hefur farið til nefndar, fyrir utan ýmis önnur mál — þá finnst mér óskynsamlegt að halda áfram þingfundi mikið lengur inn í nóttina vitandi að það er samkomulag um umræðuna á morgun.