143. löggjafarþing — 99. fundur,  29. apr. 2014.

störf þingsins.

[14:09]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Forseti. Mig langar aðeins að ítreka það sem hv. þm. Helgi Hrafn Gunnarsson sagði hér áðan, þ.e. hversu skrýtnar fréttir berast þegar hælisleitendum er vísað héðan úr landi. Þá er alltaf sagt að það sé gert á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar. Vissi maður ekki betur gæti maður haldið að það stæði eitthvað í Dyflinnarreglugerðinni um að það ætti að vísa öllum úr landi. Það er náttúrlega alls ekki svo heldur er það þannig að ef fólki er vísað úr landi á að vísa því til þess lands sem það kom frá. Þetta er mikill misskilningur og það er vont að svona sé sagt frá því að auðvitað getum við tekið á móti öllu því fólki sem við viljum ef við ákveðum svo. Við höfum meira að segja reglur um hvernig við ætlum að gera það og það er alveg ljóst að það tekur allt of langan tíma að afgreiða öll þau mál.

Virðulegi forseti. Ég held að ég hafi spurt virðulegan forseta þrisvar sinnum um þetta mál og beðið hann um ráð vegna þess að ég tel að hæstv. innanríkisráðherra svaraði ekki spurningum sem við lögðum fyrir hann, hv. þm. Mörður Árnason og ég, vegna leka, sem svo er kallaður, eða upplýsinga sem virðast hafa komið úr innanríkisráðuneytinu, eða einhvers staðar að komu þær, um hælisleitendur og fleira fólk. Innanríkisráðuneytið svaraði því til að af því að lögreglurannsókn væri í gangi gæti það ekki svarað hv. þingmönnum, gæti það ekki svarað Alþingi. Nú fer þingið að verða búið og mér finnst alveg ófært að fara héðan af þingi án þess að þeim spurningum sem ekki snerta lögreglurannsóknina sé svarað. Ég vil bara vekja athygli á því að mér finnst þetta gersamlega óþolandi.