143. löggjafarþing — 102. fundur,  2. maí 2014.

framkvæmdarvald og stjórnsýsla ríkisins í héraði.

250. mál
[14:11]
Horfa

Páll Valur Björnsson (Bf):

Hæstv. forseti. Ég kem hingað upp til þess að ræða um þessi tvö frumvörp, þ.e. frumvarp til laga um breytingu á lögreglulögum og frumvarp til laga um framkvæmdarvald og stjórnsýslu ríkisins í héraði. Ég vil bara taka undir það sem flestir hafa sagt hér um að starfið í nefndinni hafi verið virkilega gott og málefnalegt og gríðarlegur fjöldi gesta kom og við fengum fjölda umsagna um þetta frumvarp. Ég verð samt að viðurkenna að á dauða mínum átti ég von en ekki því að ég ætti eftir að taka þátt í því að ákveða eitthvað um lögreglulög og sýslumannsembætti í þessu landi. Svona er lífið skrýtið og hér stend ég í dag og tek þátt í þessu.

Ég verð að taka undir það líka sem margir hafa sagt að fækkun sýslumannsembætta og lögregluembætta hafi verið lengi í umræðunni. Það kemur náttúrlega fram í frumvörpunum að málin hafi verið lögð fram áður. Frumvarp um lögreglulögin hefur a.m.k. verið lagt fram á fjórum þingum og hitt frumvarpið á tveimur þingum. Ég segi bara að þrátt fyrir að það hafi komið fram í máli hv. þm. Helga Hrafns Gunnarssonar að við værum að fara of hratt í þetta þá er ég ekki sammála því. Ég held að það sé búið að vinna þetta mál gríðarlega vel á nokkrum árum. Ég verð dálítið stoltur af því ef núverandi allsherjar- og menntamálanefnd nær að klára þetta mál og koma því í gegnum þingið.

Maður upplifði að það var mikil jákvæðni í fólki að klára þetta mál. Auðvitað er ágreiningur og skiptar skoðanir um ýmsa hluti. Það kom t.d. fram í umsögnum frá mörgum sveitarfélögum að menn keppast við að fá að halda sínu. Það var kannski helsta ágreiningsefnið. Auðvitað töluðu sveitarfélögin sem hafa sýslumannsembætti mikið um sitt ágæti. Ég er alveg viss um það að öll eru þau hæf til þess að gegna þessu og halda þessum embættum, en það á að fækka þeim.

Það sem mér finnst líka lykilatriði er að það verður haft samráð og samráðið verður mikið við samband sveitarfélaganna, landshlutasamtökin, það er mikið atriði. Menn hafa haft vissar efasemdir um það að menn geti komist að niðurstöðu í þessum málum. Ég hef meiri trú á mannskepnunni á Íslandi en svo. Ég trúi því að við munum komast að niðurstöðu í þessu máli sem allir geta orðið sáttir við. Auðvitað eru aldrei allir alveg sáttir, það hefur komið fram og kom hér fram áðan í andsvörum að það er aldrei hægt að gera þannig að öllum líki, en þessu er náttúrlega fyrst og fremst ætlað að efla löggæslu í landinu og sýslumannsembættin og einfalda þetta og gera það aðgengilegra fyrir fólk.

Það hefur komið fram hér áður í ræðum að Vestmannaeyjar voru til umræðu og sýndist sitt hverjum um það. Ég sem þingmaður í Suðurkjördæmi get vel skilið, eftir að hafa hlustað á rök bæjarstjórnarmanna og fólks í Vestmannaeyjum, afstöðu þeirra. Auðvitað hefur líka verið talað um suðurfirði Vestfjarða sem eru oft einangraðir og eins getum við nefnt Seyðisfjarðarkaupstað sem var mjög einangraður um langan tíma í vetur. Auðvitað koma upp slík tilfelli. En Vestmannaeyjar hafa mikla sérstöðu. Það kemur náttúrlega fram í nefndarálitinu að þegar verst lætur liggja samgöngur niðri við Vestmannaeyjar í hálfan sólarhring. Við höfum fengið að kynnast því í gegnum tíðina að samgöngur þangað hafa oft verið erfiðar og annað. Fyrir utan þá staðreynd hefur orðið gríðarleg aukning á ferðamönnum þangað eftir að Landeyjahöfn kom í gagnið. Það er alveg ofboðslegur fjöldi af fólki sem dvelst þar yfir sumarmánuðina. Þar er haldin ein stærsta skemmtun landsins. Fyrir utan það er þetta eini bærinn á Íslandi þar sem fólk býr nánast á eldfjalli. Bæjarstjórinn í Vestmannaeyjum og hans fólk lögðu mikla áherslu á að þarna þyrfti vera öflugt lögregluembætti og eins sýslumannsembætti. Það er líka mikið af aðkomufólki sem sækir þarna vinnu og þar er mikið að gerast. Við vorum eiginlega öll sammála um það, þegar upp var staðið, að þetta ætti að vera með þeim hætti sem við komumst að niðurstöðu um. Vestmannaeyingar og Vestmannaeyjar hafa mikla sérstöðu hér á landi hvað þetta varðar.

Við ræddum líka um hæfisskilyrðin. Sýndist sitt hverjum um það líka. En það varð samdóma álit, sem var mjög gott, að setja inn í nefndarálitið að staðið skyldi að ráðningum á sem faglegastan hátt og með jafnréttissjónarmið að leiðarljósi. Þetta var sett inn í nefndarálitið og síðan að ríkislögreglustjóri skyldi starfrækja hæfnisnefnd sem tæki ákvörðun um ráðningu manna, sem er mjög gott líka. Ég treysti honum til þess.

Menn tala mikið um tortryggni. Alls staðar er tortryggni í samfélaginu. Mér fannst í umræðum okkar — auðvitað voru skiptar skoðanir — að menn væru mjög áfram um það að koma þessum lögum á, þessum breytingum. Það er kannski lykilatriði í öllu þessu ferli.

Það hefur líka komið fram hér í ræðum að menn eru hræddir um framkvæmdina og hvernig þetta verður í framhaldinu. Hvernig verður þetta framkvæmt? Verður það gert í fullri sátt eða sem bestri sátt? Hverjir taka ákvörðun um sýslumannsembættin og þar fram eftir götunum?

Í umsögn frá ríkissáttasemjara bendir hann á hvað breytingarnar hafi tekist vel hjá þeim. Hann bendir jafnframt á í umsögn sinni að það sé mjög mikilvægt að skýr sýn sé fyrir hendi þegar kemur að sameiningunni sjálfri og að fullt samráð hafi þá verið haft við stofnanirnar og starfsmenn. Mér þykir það líka vera eitt af lykilatriðunum að haft sé fullt samráð við starfsmenn og yfirmenn stofnana á hverjum stað, annars getur þetta ekki gengið upp eins og hann segir sjálfur. Hann segir að ef það verði ekki gert verði þessar breytingar ekki eins árangursríkar og ætlast er til.

Hvað varðar Lögregluskólann þá ræddum líka mikið um hann sem er mjög mikilvægt. Í máli framsögumannsins, hv. þm. Unnar Brá Konráðsdóttur, kom fram að það hefði lengi verið draumur lögreglumanna lengi að nám þeirra færi á háskólastig og jafnvel líka að skólanum yrði komið í hendur annarra menntastofnana í landinu sem gætu séð um námið. Ég leyfi mér og vona að menn líti ekki á það sem kjördæmapot að benda á að Keilir á Ásbrú er fyllilega í stakk búinn til þess að taka við þessu. Skólinn er með frábæra aðstöðu og er með á hendi einhverja lögreglukennslu. Þar er allt til staðar. Ég nefni hann bara sem dæmi hérna. Það eru örugglega margar aðrar stofnanir sem geta það. Það sýnir líka fjarnámið. Fólk úti á landi gæti stundað þetta nám í fjarnámi. Það er víða fólk úti á landi sem gæti hugsað sér að vinna sem lögreglumenn. Það gæti farið í fjarnám. Fjarnámskennsla um allt er að aukast. Þótt aðeins hafi dregið úr því eftir síðustu fjárlög hafa símenntunarstöðvar og fræðslustöðvar um allt land boðið upp á aðstöðu til þess að stunda fjarnám. Það er hið besta mál. Þetta er eitthvað sem við verðum að skoða mjög vel og auðvitað einnig það sem þeir voru að tala um, að fá námið metið til eininga.

Þetta er umræða sem endalaust er hægt að taka upp og ræða fram og til baka. Þetta er bara fyrsta leiðin. Það er búið að koma þessu af stað. Nefndin leggur til að ráðherra verði falið í samráði við hlutaðeigandi aðila að setja á laggirnar starfshóp í því skyni að skila tillögu um framtíðarmál Lögregluskólans. Það er hið besta mál.

Við ræddum líka umdæmi sýslumannanna sem kom fram hér áðan. Það er lykilatriði að landshlutasamtökin verði í fullu samráði um það hvernig á að gera þetta. Auðvitað verður einhver togstreita um þetta og menn munu örugglega berjast um sýslumannsembættin. Þegar menn velta fyrir sér þessari fækkun þá hefur náttúrlega orðið byggðaþróun í landinu með bættum samgöngum og ég tala nú ekki um ef við aukum enn frekar rafræna stjórnsýslu, þá verður jafnvel hægt að sameina meira. Við búum ekki á svo stóru landi og við erum ekki það mörg. Það kom fram fyrr í andsvari af hverju lögregluembættin í Reykjavík væru ekki sameinuð, ríkislögreglustjóri og lögreglustjóri Reykjavíkur. Það er umræða sem má örugglega ræða áfram. Þetta er kannski bara fyrsti liðurinn, þetta frumvarp, í enn frekari vinnu. Þegar menn sjá að þetta virkar vel verður hægt að efla þetta enn frekar og fækka stofnunum. Það kom m.a. fram í máli gesta, ég man ekki alveg hverra, ég held að það hafi verið Elliði Vignisson bæjarstjóri sem nefndi að í reynd væri jafnvel hægt að hafa bara einn sýslumann á öllu stórhöfuðborgarsvæðinu. Það væri alveg hægt. Margar svona hugmyndir komu upp og koma upp þegar þessi mál eru rædd.

Ég er ánægðastur með það hvað þessi nefnd hefur rætt þetta mál vel þrátt fyrir að ekki séu allir sammála um það. Þessi mál hafa verið rædd mjög vel og ítarlega. Fyrir mig, svona ólærðan, hefur það verið gríðarlegur skóli að taka þátt í þessari vinnu og reyna að átta mig á því hvernig landið liggur. Við þurfum að efla lögregluembættin. Það er gríðarlega mikilvægt að hafa öfluga löggæslu í landinu. Eitt það ánægjulegasta við síðasta fjárlagafrumvarp var að bætt var í hvað varðar lögregluembættin og veittir um 0,5 milljarðar til þess að efla þau. Það var virkilega ánægjulegt. Maður finnur það alveg þegar maður keyrir á þjóðvegum landsins að ef maður rekst á lögreglu veitir það öryggistilfinningu og hindrar mann í að ýta fastar á pinnann líka. Það er bara þannig. Við vitum það öll að lögreglan er gríðarlega mikilvæg í samfélaginu. Það þekki ég af eigin raun án þess að ég fari ítarlega út í það.

Eins og ég segi, hæstv. forseti, er ég mjög ánægður með þessa niðurstöðu og sérstaklega það að við skyldum geta skilað frá okkur sameiginlegu nefndaráliti, allir nefndarmenn, og að við skulum vera að ná þessum lögum í gegn núna eftir tilraunir margra þinga. Kannski er það vegna þess hve stjórnarandstaðan er lipur og sveigjanleg í samstarfi. Ég hef notið þess að starfa í þessari nefnd með því öndvegisfólki sem þar er og sérstaklega þeim sem eru gamlir í hettunni og hafa starfað lengur á þingi en ég. Það hefur verið alveg ómetanlegt. Þessi tvö mál eru stærst af þeim málum sem við höfum rætt í nefndinni. Ég er virkilega ánægður með að hafa tekið þátt í því starfi og vona að málin verði samþykkt.