143. löggjafarþing — 102. fundur,  2. maí 2014.

framkvæmdarvald og stjórnsýsla ríkisins í héraði.

250. mál
[16:02]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Mig langar að þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Hann kemur gjarnan inn á hluti sem aðrir koma ekki inn á og mér þykir yfirleitt alltaf áhugavert að hlusta á hv. þingmann tala. Mig langar aðeins að ræða hér við hann.

Ég tek undir það sem hann nefndi varðandi greiningardeildina, ég tel að það sé afar skynsamleg ákvörðun að fara þá leið hvað það varðar, en mig langar til að spyrja hann um nokkra hluti. Fram kom í andsvörum við hv. þm. Vilhjálm Árnason áðan að hann teldi að það lægi í rauninni fyrir með þeirri skýrslu sem gerð var fyrir áramótin hvernig þetta ætti að líta út, en svo þegar leið á mál hv. þingmanns átti málið að fara í hendur sveitarstjórnarmanna og heimamanna þannig að það var ekki alveg klárt hvað honum fannst. En fram kemur í umsögn Landssambands lögreglumanna og líka í umsögn fjármálaráðuneytisins um frumvarpið að þessar skipulagsbreytingar séu ekki verðmetnar og að ekki liggi heldur fyrir í rauninni hvernig þetta eigi að líta út.

Hv. þingmaður nefndi það og lýsti ánægju sinni með að flestallir landsbyggðarþingmenn væru svo ánægðir með frumvarpið. Ég sagði hér fyrr í morgun að ég væri ánægð með mjög margt í frumvarpinu en ég er ekki sátt við alveg allt. Meðal annars finnst mér að verkefnisstjórnin hefði átt að vera búin að skipuleggja þetta betur, bæði verktíma og kostnaðaráætlun. Mér finnst það ekki góð stjórnsýsla hvernig þetta var gert og tek undir með fjármálaráðuneytinu hvað það varðar. Mig langar því að spyrja hv. þingmann hvaða skoðun hann hefur á þeim málum.