143. löggjafarþing — 106. fundur,  6. maí 2014.

gjaldskrárlækkanir o.fl.

315. mál
[21:14]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (andsvar):

Herra forseti. Ég er að rýna betur í fylgiskjalið með frumvarpinu frá fjármála- og efnahagsráðuneytinu. Ég vil gæta sanngirni í þessu máli og held að mögulega hafi verið farið aðeins út af sporinu í umræðu um það. Ég held að ég hafi alla vega farið út af sporinu varðandi það hvort það ætti að taka til allra gjaldskrárhækkanir upp á þessa 2 milljarða eða hvort það ætti aðeins að taka til gjaldskrárhækkana eldsneytisgjalda og áfengis- og tóbaksgjalda. Þingmaðurinn getur kannski aðstoðað mig við þetta og sagt mér hvort hann muni til þess að þetta hafi verið svona. Það er verið að efna ákveðið loforð. Ríkisstjórnin er að efna loforð sem hún gaf 21. desember sl. Samtökum atvinnulífsins og Alþýðusambandi Íslands í tengslum við gerð kjarasamninga, eins og segir.

Hér kemur fram að ein af forsendum fjárlaga árið 2014 hafi verið að, með leyfi forseta:

„… gjaldskrár eldsneytisgjalda og áfengis- og tóbaksgjalda mundu hækka um 3% í upphafi árs í takt við verðlagsforsendur fjárlagafrumvarpsins. Þau áform voru samþykkt á Alþingi með lögum nr. 140/2013, um ýmsar forsendur frumvarps til fjárlaga fyrir árið 2014. Í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar frá 21. desember 2013, sem kynnt var SA og ASÍ í tengslum við gerð kjarasamninga, segir m.a.: „Ríkisstjórn lýsir því yfir að hún muni við samþykkt kjarasamninga endurskoða til lækkunar vissar breytingar á gjöldum sem samþykktar hafa verið í tengslum við afgreiðslu fjárlaga 2014 til að stuðla að því að verðlagsáhrif, sem af þeim leiði, verði minni en ella og innan verðbólgumarkmiða Seðlabanka Íslands (2,5%).““

Er þetta það sem ríkisstjórnin lofaði á sínum tíma? Man þingmaðurinn það? Voru það bara hækkanir á bensíni, búsi (Forseti hringir.) og tóbaki?