143. löggjafarþing — 106. fundur,  6. maí 2014.

gjaldskrárlækkanir o.fl.

315. mál
[21:16]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Maður verður að fara varlega þegar maður er að rifja upp án þess að hafa tækifæri til að fletta því upp. Ég upplifði loforð ríkisstjórnarinnar á sínum tíma sem afar veik og veigalítil, sérstaklega eftir að sveitarfélögin spiluðu út og við vorum að gera kröfu um að þá mundi ríkið draga til baka ýmsar gjaldskrárhækkanir sem höfðu verið boðaðar, eins og í tengslum við komugjöld og annað slíkt. Ég man ekki eftir að það hafi verið nefnt nákvæmlega hvaða lækkanir það áttu að vera. Ég man ekki eftir að áfengisgjald og annað hafi verið nefnt nema sem í dæmaskyni. Það var í raun þannig að því var lofað eða menn töluðu um að þetta mundi vega 0,08% inn í verðbólguna, þ.e. að þetta væri innan við tíunda partinn, að þetta mundi vega á ákveðinn hátt inn í verðbólguna. Ég held að menn hafi bara fundið tölur sem gáfu þá lækkun án þess að íhuga það mikið frekar. Það virkar þannig á mig.

Að því leyti get ég ekki ásakað ríkisstjórnina um að hafa endilega verið að svíkja orð sín, en það kemur fram í umsögnunum frá ASÍ og fleirum að þeir áttu von á því að þessar lækkanir kæmu annars staðar, af því að það lá ekki fyrir. Það er mín skoðun að menn hefðu átt að ráðast á aðra hluti en þessa. Við höfum verið að ræða til dæmis bensínverðið og ef við skoðum sveiflurnar í bensínverði getur verið afsláttur upp á jafnvel á 10 kr. einhvern daginn og við erum hér að tala um eina krónu á bensínlítra yfir árið, þ.e. af hverjum bensínlítra frá júní til ársloka. Skilar það sér? Mun það skila sér í gjaldskrá olíufélaganna? Höfum við einhverja tryggingu fyrir því? Er eitthvert eftirlit sem mun tryggja það?

Vonbrigðin eru forgangurinn, valið á viðfangsefnunum, en ég get ekki ásakað (Forseti hringir.) ríkisstjórnina um að hafa ekki staðið með þessum kjarasamningum. Það verða aðrir að gera.