143. löggjafarþing — 107. fundur,  9. maí 2014.

gjaldskrárlækkanir o.fl.

315. mál
[11:17]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Það er nú hollt að rifja það upp að af hálfu stjórnarandstöðunnar og af hálfu okkar í Samfylkingunni var ítrekað boðið fram að þetta mál yrði tekið fram fyrir þá götóttu tillögu um afturköllun aðildarumsóknar sem ríkisstjórnarmeirihlutinn heimtaði að fá að ræða hér alla daga, dag eftir dag eftir dag, og hefur núna heykst á að koma í gegn.

Virðulegi forseti. Það er síðan ástæða til að koma hér aftur upp í ræðustól um þessa atkvæðagreiðslu til að vekja líka athygli á því að það var fullt af öðrum gjaldskrárhækkunum um síðustu áramót sem stjórnarmeirihlutinn kýs að gera ekkert við, yfir 20% hæstu hækkanir í komugjöldum í heilsugæslu. Við þeim er ekki snert. Það er dapurlegur vitnisburður að sjá þessa forgangsröðun stjórnarmeirihlutans og þegar maður horfir á þetta frumvarp liggja líkur að því að líklega er það það eina sem fólk mun verða vart við í gjaldskrárlækkunum vegna þessa frumvarps í áfengi og tóbaki. Og það getur ekki talist réttlætanlegt framlag (Forseti hringir.) til verðstöðugleika í landinu.

Að síðustu munum við flytja við 3. umr. frekari breytingartillögur við þetta mál.