143. löggjafarþing — 107. fundur,  9. maí 2014.

stefnumótandi byggðaáætlun 2014--2017.

256. mál
[15:07]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Frú forseti. Ég ætla aðeins að koma inn í umræðuna um stefnumótandi byggðaáætlun og fara yfir nokkur atriði.

Almennt held ég að það sé þannig, eins og kemur fram í athugasemdum við frumvarpið, að það hafi verið til byggðaáætlanir í ansi mörg ár en misjafnlega gengið að fylgja þeim eftir og margt sem þar kemur við sögu, bæði fjármunir og svo eftirfylgni og skilvirkni. Hér er gerð tilraun til þess að fækka liðum í þeirri von að hún verði einfaldari í framkvæmd.

Í sambandi við það sem kemur fram í athugasemdunum þar sem megináherslan á að vera á að stuðla að auknu jafnræði íbúa, bæði varðandi grunnþjónustu og innviði og einnig þau byggðarlög sem standa sýnu verst, getur maður ekki annað en hugsað um forgangsröðunina sem nú er í gangi í útdeilingu opinbers fjár og skerðinguna sem hefur orðið m.a. í heilbrigðisþjónustunni. Eiginlega finnst mér það ekki byrja vel ef þetta er undirtónninn, þ.e. ekki er byrjað á því að standa við orðin í byggðaáætluninni. Ég held að í sjálfu sér sé eitt að vilja jöfnun lífsskilyrða og annað að fylgja því eftir. Það hefur þessi ríkisstjórn því miður sýnt og hún virðist ætla að ganga fram með að mismuna fólki eftir búsetu því að nýjustu tillögur sem liggja fyrir þinginu í skuldaleiðréttingarmálum snúa akkúrat að því að þar er fjármunum mjög misskipt á milli veikari svæða og þeirra sterkari.

Hér er líka farið yfir þau atriði sem síðasta byggðaáætlun innihélt, m.a. félagsauð. Verið er að ræða félagsauð hvers svæðis og talað um að það sé grundvöllur atvinnulífs. Við erum og höfum í fjárlaganefnd fjallað mikið um landbúnaðarháskólann og það sem sá skóli hefur þurft að ganga í gegnum og þann styr sem stendur um framtíð hans. Þar held ég að þurfi að virkja félagsauðinn, samfélagið í heild sinni, til samræðu um það hvernig þeim málum verður best fyrir komið með alla möguleika opna. Ég held að það verði til þess að félagsauðurinn sem til staðar er og sýn fólksins á eigin framtíð í viðkomandi samfélögum skipti máli.

Fjallað er um sóknaráætlanir landshluta. Það er verkefni sem var hrundið af stað á síðasta kjörtímabili og mæltist afar vel fyrir. Við gerð fjárlaganna komu öll sveitarfélögin til fundar við okkur í fjárlaganefnd eða funduðu í gegnum fjarfundabúnað. Þau lýstu því eindregið yfir að þetta væri gott fyrirkomulag, gott verkefni, og lýstu um leið mjög miklum vonbrigðum með niðurskurð þess sem sett var í verkefnið. Þrátt fyrir að eitthvað örlítið hafi verið bætt úr var það svo sáralítið að mér finnst eiginlega varla taka því að tala um það.

Hins vegar er annar vinkill á því sem kemur fram og það eru landshlutasamtökin. Þau eru auðvitað ekki formlegt stjórnvald. Það hefur stundum verið talað um þriðja stjórnsýslustigið en það er ekki orðið svo enn þá og því þarf að fara svolítið vel yfir það í ljósi þess að hér er lagt til að áframhaldandi verði þeim fengin aukin verkefni, reyndar er tekið fram að þeim sé ekki fundinn staður annars staðar en þau eiga samt að framkvæma eða vera farvegur til að framkvæma þessar byggðaáætlanir. Það er mjög mikilvægt að þá ríki um það einhugur milli sveitarfélaga að það séu landshlutasamtökin sem sjái um þá framkvæmd. Sóknaráætlanir og menningarsamningar eru dæmi um það sem tekist hefur vel undir hatti landshlutasamtakanna.

Hér hefur aðeins verið talað um, og það kemur fram í nefndaráliti, aðgerðir sem lúta að stuðningi við einstaklinga og er verið að tala um alls konar ívilnanir, skattafslátt vegna aksturs til og frá vinnu, afslátt á námslánum eða afskriftir, uppbót á barnabætur. Ég hefði gjarnan viljað sjá staðið við framlag til barnabóta sem var skert og verður skert þannig að því væri þannig komið fyrir að það væru þeir sem minnstu tekjurnar hefðu sem fengju þær, hvar svo sem þeir væru á landinu staddir fremur en að þær væru sérstaklega byggðatengdar. Ég er ekki viss um að það sé endilega réttur farvegur, enda kemur fram að þetta yrði hugsanlegt tilraunaverkefni og vitnað til Norður-Noregs varðandi námslánin. Þetta er eitthvað sem forsætisráðherra á að skila skýrslu um eftir um eitt og hálft ár og fyrir 1. október á næsta ári á að vera búið skila þessum könnunum vegna þessara tillagna eða hugmynda. Það verður áhugavert að sjá hvað kemur út úr því.

Við höfum mikið rætt fjarskiptamálin, í þinginu og eins í fjárlaganefnd. Þótt það sé spaugilegt er það líka sorglegt að leiðarljósið sé að 90% lögheimila og vinnustaða eigi kost á 30 megabæta tengingu árið 2014. Þegar maður hefur búið við gott netsamband í ansi mörg ár finnst manni ótrúlegt að margir búi við svo slök fjarskipti að það til dæmis hamli flutningi verkefna frá ríki til sveitarfélaga eða hafi orðið til þess að fólk sjái sér ekki fært að flytja á tiltekna staði. Þetta skiptir gríðarlega miklu máli þegar fólk er að velja sér búsetu, það er að verða einn af þeim grunnþáttum sem spurt er um sem skiptir einna mestu máli. Mér finnst þessu ætlaður allt of langur tími. Mér finnst það vera eitt af allra brýnustu forgangsverkefnum byggðanna að þetta sé í lagi því að auðvitað skiptir það opinbera starfsemi líka máli.

Það komu nokkur sveitarfélög til okkar, ekki mörg en nokkur þeirra höfðu lagt af stað í þessa vinnu sjálf þar sem þau sáu fram á að ríkið mundi ekki aðstoða þau við að koma þeim málum í lag og töldu að skattpeningum byggðarinnar væri betur varið í þetta til að halda fólki á staðnum og til að lokka til sín nýtt fólk.

Ég tek undir það sem kemur fram í athugasemdum við þennan lið í frumvarpinu þar sem er talað um að þörf sé á samhæfðum og uppfærðum upplýsingum og leiðbeiningum, þ.e. eitthvert regluverk sem sé á einum stað og aðferðafræði fyrir sveitarfélög og auðvitað líka veitufyrirtækin og aðra opinbera hagsmunaaðila sem vilja byggja upp einhverja fjarskiptainnviði eða ljósleiðarakerfi. Ég held að það sé mjög mikilvægt þannig að hver og einn geri þetta ekki á sínum forsendum og haldi jafnvel að hann geti hugsanlega fengið þetta greitt á einhvern hátt til baka aftur.

Eins og ég hef sagt kemur fram undir atvinnumál að fjarskiptatæknin sé kannski þess valdandi að hið opinbera geti ekki fært í þeim mæli sem það vildi, hugsanlega, ég veit það ekki, störf á tiltekna staði. Alla vega er þetta afar brothætt.

Varðandi brothættu byggðarlögin er það fyrsta sem manni dettur í hug sú breyting sem gerð var á síðasta kjörtímabili hjá Byggðastofnun, að færa henni aflaheimildir til úthlutunar, verkefnið á Raufarhöfn þar sem þetta varð til og fékk þetta heiti sem náði svo til fleiri þorpa, og það eru auðvitað fleiri undir og ljóst að við þurfum að halda áfram því verkefni því að það er ekki ein lausn sem hentar öllum. Það er líka ánægjulegt að Byggðastofnun skilaði sér réttum megin við núllið í fyrsta skiptið í ansi langan tíma. Ég held að við þurfum að tryggja Byggðastofnun sérstök úrræði með fjármunum sem hún getur notað til þess að styðja enn frekar og betur við hin brothættu byggðarlög.

Svo eru það samgöngumálin. Í nefndarálitinu er talað um þau í atvinnulegu tilliti og um hvað það er sem skiptir máli og hvar eigi að bera niður. Ítrekar þessi nefnd álit þáverandi atvinnuveganefndar varðandi byggðaáætlun sem hér er að renna sitt skeið. Þar var bent á sunnanverða Vestfirði, Norðfjörð og Seyðisfjörð. Norðfjörður er auðvitað kominn af stað, en það er mikilvægt að halda til haga að það verður að gera rannsóknir sem lúta að gangaframkvæmdum til Seyðisfjarðar, þar er mikið í húfi. Það er eiginlega það mikið að það skiptir máli fyrir það hvort byggðin verður lífvænleg eða ekki og kom vel í ljós í vetur og núna undir vorið, eins og við þekkjum öll, hvernig snjóalögin voru víða á Austfjörðum.

Það er ekki aðeins það, það er líka Öxi og eins og við ræddum um daginn er það einnig Almenningarnir í Fljótunum sem er, svo ég tali bara um í mínu kjördæmi, afar brýnt að huga að og getur skipt máli fyrir þessar byggðir.

Við höfum líka töluvert rætt um gríðarlegan kostnað við innanlandsflugið. Nú er Isavia að endurgreiða, þ.e. hún fær lægri fjárframlög en ella vegna þess að hún er að endurgreiða það sem kallað er fyrir fram greiddar markaðar tekjur. Ég held að það séu mistök. Ég held að ekki hefði átt að draga það fé af þeim. Ég held að það hefði átt að reyna að bæta frekar eða leyfa þeim að halda þessu fé til að styrkja innanlandsflugið þannig að frekar væri hægt að lækka fargjöld. Svo eru það auðvitað veiku svæðin eins og Vopnafjörður, Þingeyri, Höfn, Grímsey og fleiri, ég veit ekki hvort útboðið er farið af stað varðandi það flug en það var aðeins tryggt þetta árið. Það er mikilvægt að íbúar þessa svæðis fái að vita hvort stefnt sé að því að halda því áfram, því að það skiptir byggðina máli.

Svo rétt um orkumálin. Þau hafa mikið verið rædd. Við bættum í þau á síðasta kjörtímabili og vorum búin að leggja til að það yrði áfram stigvaxandi niðurgreiðsla eða jöfnun á húshitun sem er kynnt með raforku. Því miður var það líka skorið niður og allt of margir sem búa á köldum svæðum — ég hugsa að við hrykkjum við mörg hver ef við þyrftum að greiða þann kostnað, en sumir hér þekkja af eigin raun hversu mikið dýrara það er. Þetta er einn af þeim þáttum sem mér hefur ekki fundist ríkisstjórnin fylgja eftir í verki, þetta er meira í orði en á borði.

Síðan eru það húsnæðismálin. Ég kem úr litlu samfélagi og við stöndum frammi fyrir því að hér er verið að tala um að íbúar kunni að vera í samkeppni við ferðamenn um húsnæði af því að verið er að fjárfesta til útleigu. En það er líka svo að mjög margir kaupa sér íbúðarhúsnæði til að nýta sem sumarhús sem þýðir að stór hluti húsa er ljóslaus, eins og ég hef sagt, stóran hluta ársins af því að fólkið hefur ákveðið að flytja í burtu, hvort sem það er vegna atvinnu eða annarra þátta.

Ég vil taka undir með hv. þm. Lilju Rafneyju Magnúsdóttur sem ræddi áðan um atvinnumálin og það sem við stöndum frammi fyrir núna meðal annars varðandi Djúpavog, Þingeyri og Húsavík, sérstaklega Djúpavog og Þingeyri. Það verður að segjast eins og er að þar er staðan sýnu verri. Þetta er eitthvað sem við verðum að leysa og finna út úr þannig að sveitarfélög verði ekki fyrir þessu. Hér var nefndur Vopnafjörður hvað það varðar. Ég sé það líka fyrir til dæmis heima hjá mér að ef risastór útgerðaraðili þar ákveður að fara eitthvað annað verði það til þess að samfélagið verði ekki samt og jafnvel ekki annað sem kemur í staðinn. Það er kannski það sem við þurfum að reyna að ná lendingu um en við höfum eytt mörgum árum í það og einhvern veginn ekki tekist það enn þá.

Virðulegi forseti. Ég ætla að láta þetta duga að sinni um stefnumótandi byggðaáætlun. Ég vona að henni verði fylgt eftir. Það að gefa skýrslu sem er eitt og sér og út af fyrir sig ágætt, en auðvitað er mikilvægara að henni sé fylgt eftir með fjárframlögum.