143. löggjafarþing — 108. fundur,  12. maí 2014.

barnageðheilbrigðismál á Norðurlandi.

[10:54]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir svarið. Mér finnst við einhvern veginn vera núna kannski svolítið í sömu sporum og við vorum fyrir ári og lítið hafa breyst. Ég veit alveg að inn í málið spila deilur milli manna, staðan er sú, en öll kerfi eru mannanna verk. Mér finnst að við hljótum að geta fundið einhverja lausn í málinu. Við erum með teymi fyrir norðan sem er tilbúið að sinna þessari þjónustu en mun ekki fara að vinna undir Sjúkrahúsinu á Akureyri, ég held að það sé alveg ljóst, en það hlýtur að vera hægt að sníða reglugerð. Um það höfum við talað hátt í eitt ár að laga þessa reglugerð þannig að barna- og unglingageðlæknir geti vísað skjólstæðingum sínum til sálfræðings sem hafa unnið saman í mörg, mörg ár, rétt eins og er gert í Reykjavík. Það hefur ekki enn tekist að breyta þeirri reglugerð.

Ég lýsi því yfir vonbrigðum með hvað hægt hefur gengið í þessu máli og ég óttast um framtíðina. Ef foreldrar fá ekki umrædda þjónustu fyrir börn sín flytja (Forseti hringir.) þeir þangað sem þjónustuna er að finna, það er bara þannig. Þetta er grunnþjónusta.