143. löggjafarþing — 108. fundur,  12. maí 2014.

barnageðheilbrigðismál á Norðurlandi.

[10:55]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Ég held að ég deili áhyggjum hv. þingmanns rétt eins og allir þingmenn Norðausturkjördæmis, hvar svo sem í flokki þeir standa. Við höfum rætt þetta margoft á okkar sameiginlegu fundum og þá umræðu hef ég tekið með mér og flutt þeim stofnunum sem þessi mál heyra undir þau skilaboð sem út úr þeim samtölum okkar hafa komið, hvort heldur innbyrðis eða með fulltrúum þeirra sem hafa verið að þrátta um þessi mál. Hins vegar er augljóst að við munum aldrei, þó svo að það sé orðað þannig að við ættum þá bara að gera það, sérsníða einhverja lausn fyrir tiltekið þjónustuúrræði, þá gerum við það aldrei öðruvísi en að það sama úrræði muni verða fordæmi fyrir aðra þætti þjónustunnar. Þar liggur kannski vandinn í því kerfi sem við erum að tala um, að það sem gert er á einum stað mun að sjálfsögðu verða leitt fram á öðrum stöðum í kerfinu. Það er kannski það sem þessar stofnanir, Sjúkratryggingar Íslands, Landspítalinn, Sjúkrahúsið á Akureyri eru að glíma við, að það sem þær kunna að gera muni verða notað annars staðar í kerfinu.