143. löggjafarþing — 108. fundur,  12. maí 2014.

séreignarsparnaður og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar.

484. mál
[17:17]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Í fyrsta lagi vefengi ég það mjög að það verði einhver hundrað þúsund heimili sem geti nýtt sér þessar aðgerðir, því að þegar að því er spurt og það kannað hjá félagasamtökum hvað þau meti líklegt að margir í þeirra röðum geti tekið af launum sínum, sem þeir þurfa til framfærslu í dag, og farið inn í séreignarsparnaðarúrræðið, jafnvel þó það sé feit gulrót í formi skattleysis, þá draga menn það mjög í efa að það verði margir. Það verði ekki margir öryrkjar, það verði ekki margir sem eru í leigu í félagslegu íbúðarhúsnæði sem hafa ráð á því að taka þátt í þessu.

110%-leiðin var náttúrlega ósambærileg við þetta að öllu leyti. Í fyrsta lagi voru tekju- og eignaskerðingarmörk í henni þó að einstöku bankar framkvæmdu hana með rýmri hætti en almennu reglurnar gerðu ráð fyrir. Í öðru lagi var þar eingöngu verið að afskrifa yfirveðsett húsnæði og að því tilskildu að menn ættu ekki miklar aðrar eignir á móti. Það var verið að horfast í augu við mál, þar sem háar fjárhæðir áttu vissulega stundum í hlut, sem var tapað fé vegna þess að menn áttu hvorki eignir né höfðu (Forseti hringir.) tekjur né höfðu veð til að standa undir sínum lánum. Það var þannig. Þetta var leið sem bankar og lífeyrissjóðir töldu sig geta farið. Ég held það hafi lítið upp á sig að vera að reyna að tala hana niður úr þessu.