143. löggjafarþing — 109. fundur,  13. maí 2014.

störf þingsins.

[11:57]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Í árdaga verkalýðsbaráttu var verkfallsvopnið oft og tíðum eina vopnið sem verkalýðurinn hafði til að berja fram kröfur sínar um viðunandi laun og viðunandi réttindi. Þá beindist verkfallsvopnið yfirleitt gagnvart því fyrirtæki sem menn unnu hjá. Fólkið í frystihúsinu fór í verkfall og beindi verkfallinu gegn fyrirtækinu sem það vann hjá. Þetta var í árdaga.

Síðan gerist það að menn uppgötva að það er snjallt að berja á þriðja aðila til að ná fram kröfum sínum. Þá fara að koma upp mjög merkilegar stöður, við upplifum núna að verkfall flugmanna lokar hreinlega landinu. Þeir fórna litlu, þeir fórna kannski nokkrum yfirvinnutímum eða nokkrum tímum á viku, en þeir loka landinu og valda gífurlegu tjóni, allri ferðaþjónustunni.

Þetta hefur leitt til þess að þeir fá hæstu launin sem valda þriðja aðila mestu tjóni miðað við eigið framlag.

Ég spyr hv. þm. Ögmund Jónasson sem hefur nokkra þekkingu á verkalýðsbaráttu og verkalýðsstarfsemi hvort ekki þurfi að skoða verkfallsréttinn upp á nýtt í ljósi þeirrar stöðu hvernig menn eru farnir að nota hann með allt öðrum hætti en var í upphafi.

Núna beinist hann eiginlega gegn aðilum sem eiga ekki aðild að viðkomandi kjarasamningi, bara enga, og geta ekki haft nein áhrif á hann. Er ekki ástæða til að endurskoða verkfallsréttinn sem margir líta á sem heilagan, sérstaklega vinstri menn, og endurskipuleggja þannig að hann fari aftur í sitt upprunalega horf að beinast gegn því fyrirtæki sem er þá aðili að kjarasamningi?